Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11255/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík vegni beiðni er snerti eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 2008.

Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns komst málið á hreyfingu á ný og var lagt í viðeigandi farveg hjá byggingarfulltrúa. Því var ekki tilefni til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 18. ágúst sl. sem lýtur m.a. að töfum á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna beiðni yðar sem snertir staðfestingu á eignaskiptayfirlýsingu frá árinu 2008 vegna fasteignarinnar [...].

Í tilefni af kvörtuninni var byggingarfulltrúanum ritað bréf 23. ágúst sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins auk þess að óskað var eftir því að embættið afhenti afrit af gögnum málsins. Svar byggingarfulltrúans barst með bréfi 13. september sl. Þar var þeirri afstöðu embættisins lýst að erindum yðar vegna málsins hefði verið svarað og að ekki hafi þótt ástæða til að bregðast sérstaklega við beiðni yðar um endurskoðun málsins. Í tilefni af svarinu var embættinu ritað bréf 15. október sl. þar sem óskað var eftir nánari skýringum á framangreindri afstöðu, þó með þeim fyrirvara að yrði það tilefni fyrir embættið að fjalla um málið að nýju væri óþarft að veita umbeðnar skýringar, heldur nægði að sent yrði afrit af tilkynningu þess til yðar þar um.

Með tölvubréfum dagana 13. og 25. janúar sl. upplýsti starfsmaður byggingarfulltrúans um að unnið væri að úrlausn málsins í samráði við yður. Með tölvubréfi 15. febrúar sl. upplýstuð þér starfsmann minn um að unnið væri að úrlausn málsins af hálfu byggingarfulltrúans. Þar sem athugun mín laut einkum að afgreiðslu byggingarfulltrúans á erindum yðar vegna eignaskiptayfirlýsingarinnar og að nú liggur fyrir að málið hefur verið lagt í farveg hjá embættinu tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins að svo stöddu og læt því athugun minni á málinu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ef frekari tafir verða á afgreiðslu málsins eða ef þér teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu byggingarfulltrúans vegna málsins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.