Almannatryggingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11683/2022)

Kvartað var yfir því að í reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands væri heimild til endurgreiðslu takmörkuð umfram það sem kveðið væri á um lögum um sjúkratryggingar. Þá væru ýmis ákvæði reglugerðarinnar í andstöðu við lögin eða ættu sér ekki stoð í þeim.

Ekki varð séð af kvörtuninni að athugasemdirnar í henni hefðu verði bornar undir úrskurðarnefnd velferðarmála að því marki sem þær snertu ágreining um rétt viðkomandi til endurgreiðslu ferðakostnaðar á grundvelli laganna. Þá varð ekki heldur ráðið að þeim hefði verið komið á framfæri við heilbrigðisráðuneytið. Af þessum sökum voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 6. maí sl. yfir reglugerð nr. 1140/2019, um ferðakostnað sjúkratryggða og aðstandenda þeirra innanlands. Sam­kvæmt kvörtuninni lúta athugasemdir yðar m.a. að því að með ákvæðum reglu­gerðarinnar sé heimild til endurgreiðslu ferðakostnaðar takmörkuð umfram það sem kveðið er á um í lögum nr. 112/2008, um sjúkra­tryggingar, og ýmis ákvæði reglugerðarinnar séu í andstöðu við lögin eða eigi sér ekki stoð í þeim.

Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 1140/2019 er hún sett af heil­brigðis­ráðherra, sem fer með yfirstjórn sjúkratrygginga, með stoð í 30. og 55. gr. laga nr. 112/2008. Í 30. gr. laganna segir að sjúkra­tryggingar taki þátt í óhjákvæmilegum ferðakostnaði með takmörkunum og eftir ákvæðum reglugerðar sem heilbrigðisráðherra setur fyrir sjúkra­tryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagnar. Þar segir jafnframt að ráðherra sé heimilt í reglugerð að ákveða frekari kostnaðarþátttöku sjúkra­trygginga í ferðakostnaði. Í 7. gr. reglugerðarinnar kemur fram að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð ferðakostnaðar sé heimilt að kæra ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands til úrskurðar­nefndar velferðarmála, sbr. 36. gr. laga um sjúkratryggingar.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar um fyrrgreinda reglugerð nr. 1140/2019 undir úrskurðarnefnd vel­ferðar­­mála að því marki sem þær snerta ágreining um rétt yðar til endurgreiðslu ferðakostnaðar á grundvelli laga nr. 112/2008 og reglu­gerðarinnar. Þá verður ekki ráðið að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við heilbrigðisráðuneytið að því marki sem þær lúta almennt að því fyrirkomulagi sem mælt er fyrir um í téðri reglugerð, en heil­brigðisráðherra fer sem fyrr greinir með yfirstjórn sjúkratrygginga, sbr. 4. gr. laganna. Af þeim sökum og með vísan til þess sem fyrr greinir um þau sjónarmið sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 eru ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.