Ríkisborgararéttur. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11666/2022)

Kvartað var yfir því að Alþingi hefði ekki fallist á umsókn um ríkisborgararétt.

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 25. apríl sl., fyrir hönd A,  en í henni kemur fram að Alþingi hafi ekki fallist á umsókn hennar um íslenskan ríkisborgararétt vegna skorts á gögnum frá Útlendingastofnun.

Af kvörtun yðar, eins og hún er fram sett, verður ekki annað ráðið en að A hafi beint umsókn um íslenskan ríkisborgararétt til Alþingis á grundvelli 6. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkis­borgara­rétt. Samkvæmt 1. mgr. þess ákvæðis veitir Alþingi ríkis­borgara­rétt með lögum. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að áður en umsókn um ríkis­borgararétt er lögð fyrir Alþingi skuli Útlendingastofnun fá um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda. Enn fremur skuli Útlendinga­stofnun gefa umsögn um umsóknina.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sem og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Starfssvið umboðsmanns tekur hins vegar ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 4. mgr. ákvæðisins. Þar sem ekki verður annað ráðið en að kvörtun yðar lúti að máli sem var til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis fellur efni hennar samkvæmt framangreindu utan starfssviðs umboðsmanns.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.