Menntamál.

(Mál nr. 11613/2022)

Kvartað var yfir því að flytja ætti Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri til Stokkseyrar án samráðs við íbúa.

Samkvæmt gögnum málsins hafði ekki verið tekin endanleg ákvörðun um framtíðarhúsnæði skólans á Eyrarbakka og að jafnframt hefði verið ákveðið að koma bráðabirgðahúsnæði hans fyrir þar. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til frekari athugunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 18. mars sl. yfir því að flytja eigi Barna­skólann á Eyrarbakka og Stokkseyri yfir á Stokkseyri án samráðs við íbúa.

Af fundargerðum nefnda, stjórna og ráða Sveitarfélagsins Árborgar verður ráðið að mygla hafi greinst í húsnæði skólans á bæði Eyrar­bakka og Stokkseyri og í kjölfar þess hafi m.a. verið tekin sú ákvörðun að loka húsnæði skólans á Eyrarbakka og flytja kennsluna tíma­bundið annað. Samkvæmt fundargerð bæjarráðs 10. mars sl. var sam­þykkt verkefnistillaga um samráð vegna þess vanda sem kominn væri upp í skólanum. Var þar lagt til að samráðið yrði í þremur liðum, þ.e. opið samráð við íbúa, samráð við nemendur og forráðamenn og samráð við starfs­fólk. Efnið frá samráðsfundinum myndi nýtast stjórnendum og bæjar­stjórn við mótun stefnu í húsnæðismálum skólans og ákvörðunartöku um aðgerðir. Þá kom fram í fundargerð bæjarstjórnar 4. apríl sl. að samþykkt hefði verið að útboð færi fram í samræmi við sviðsmynd 2A í minnisblaði um bráðabirgðahúsnæði fyrir skólann. Sú sviðsmynd fæli í sér að bætt væri við fjórum einingum með tengigangi við þær skólastofur skólans á Eyrarbakka þar sem ekki greindist mygla.

Samkvæmt framangreindu hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um framtíðarhúsnæði skólans á Eyrarbakka og þá hefur jafnframt verið tekin sú ákvörðun að bráðabirgðahúsnæði hans verði komið fyrir þar. Að því virtu tel ég ekki efni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Hef ég þar m.a. í huga að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en það hefur endanlega verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.