Skattar og gjöld. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11672/2022)

Kvartað var yfir úrskurði ríkisskattstjóra vegna endurákvörðunar á virðisaukaskatti frá 9. febrúar 2021.

Þar sem úrskurðurinn hafði ekki verið kærður til yfirskattanefndar auk þess sem meira en ár var liðið frá honum brast skilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 3. maí sl. sem verður skilin þannig að hún beinist að úrskurði ríkisskattstjóra 9. febrúar 2021 um endurákvörðun á virðisaukaskatti X slf.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skal bera kvörtun fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þá segir í 3. mgr. sömu lagagreinar að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Hefst ársfresturinn samkvæmt 2. mgr. þá frá þeim tíma.

Ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsan­lega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Skilyrði ákvæðisins eru ekki uppfyllt þegar fyrir liggur að sá sem kvartar hefur átt þess kost að kæra málið til æðra stjórn­valds án þess að hafa neytt þess úrræðis.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er heimilt að kæra úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Í ljósi þess að þér hafið greint frá því að þér hafið ekki kært úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskatta­nefndar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.