Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds.

(Mál nr. 697/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 15. desember 1992.

A kvartaði yfir afgreiðslu sjávarútvegsráðuneytisins á umsókn hans um leyfi til rækjuveiða. Fram kom, að A hafði með bréfi 9. september 1992 lagt fram umsókn sína. Sjávarútvegsráðuneytið tilkynnti mér síðan með bréfi 27. október 1992, að umsókn A hefði verið send Fiskistofu til afgreiðslu. Með bréfi, dags. 30. október 1992, synjaði Fiskistofa umsókn A.

Í bréfi mínu til A, dags. 15. desember 1992, sagði m.a. svo:

„Lög um Fiskistofu komu til framkvæmda 1. september 1992. Er Fiskistofu, sem heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið, m.a. ætlað að sjá um útgáfu veiðileyfa, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða.

Samkvæmt framansögðu hefur Fiskistofa synjað umsókn yðar. Það er skoðun mín, að ákvörðun Fiskistofu verði borin undir sjávarútvegsráðuneytið til úrskurðar. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki hægt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki áður fellt úrskurð sinn í málinu. Ef þér hyggist láta frekar reyna á framangreinda ákvörðun Fiskistofu, bendi ég yður á framangreinda leið.“