Kosningar. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.

(Mál nr. 11420/2022)

Kvartað var yfir að starfsmenn Landspítala hefðu ekki orðið við beiðnum um að viðkomandi fengi að greiða atkvæði innan veggja spítalans á kjördegi alþingiskosninga.

Ekki var tilefni til að draga aðra ályktun af gögnum málsins en að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fyrir sjúklinga á Landspítala hefði verið ákveðin og auglýst í samræmi við ákvæði þágildandi kosningalaga og leiðbeiningar dómsmálaráðuneytisins. Af þeim sökum og þar sem ekki var kostur á að greiða atkvæði utan kjörfundar á spítalanum á kjördegi voru ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu starfsmanna hans að ekki hefði verið unnt að verða við beiðnum viðkomandi þann dag um að fá að greiða atkvæði innan veggja hans.

Kvörtunin varð umboðsmanni þó tilefni til að taka fram að hún hefði vakið athygli hans á álitaefnum um framkvæmd atkvæðagreiðslna utan kjörfundar á sjúkrahúsum og öðrum slíkum stofnunum sem kynni að vera ástæða til að taka til nánari athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar hans. Ef til þess kæmi yrði slíkt upplýst á vef embættisins.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 25. nóvember sl. yfir því að starfsmenn Land­spítala hafi ekki orðið við beiðnum yðar 25. september sl. um að fá að greiða atkvæði innan veggja spítalans á kjördegi alþingis­kosninga þann dag.

Í tilefni af kvörtuninni var Landspítala ritað bréf 9. desember sl. og óskað eftir að upplýst yrði um verklag vegna kjósenda sem eru inni­liggjandi á spítalanum og samskipti starfsfólks við yður. Einnig var óskað eftir því að afhent yrðu gögn sem hefðu þýðingu fyrir athugun umboðsmanns á atvikum málsins. Í svari spítalans 14. febrúar sl. kom m.a. fram að þér hefðuð verið inniliggjandi á tilgreindri deild Land­spítala í Fossvogi 22. til 29. september sl. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar á spítalanum í Fossvogi hefði farið fram 23. þess mánaðar en það hefði verið mat hjúkrunarfræðings að þér hefðuð verið of veikur þá til að geta kosið, enda myndi hún ekki eftir því að þér hefðuð óskað eftir því að greiða atkvæði þann dag. Þá hefði ekki verið unnt að verða við beiðni yðar um að fá að greiða atkvæði á kjördag.

 

II

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 33. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 hafa kosningarrétt við kosningar til Alþingis allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkis­borgara­rétt. Í 2. mgr. sömu greinar er mælt fyrir um að nánari reglur um alþingiskosningar skuli settar í kosningalögum.

Um framkvæmd alþingiskosninga 25. september sl. fór samkvæmt ákvæðum þágildandi laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Í XII. kafla þeirra laga var fjallað um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, en samkvæmt kvörtuninni laut beiðni yðar að því að fá að kjósa utan kjörfundar, þ.e. innan veggja Landspítala, á kjördegi. Í 56. gr. laganna kom fram að kjósandi, sem ekki gæti sótt kjörfund á kjördegi, hefði heimild til að greiða atkvæði utan kjörfundar eftir þeim reglum sem settar væru í lögunum. Í 2. mgr. 58. gr. sömu laga sagði að kjósanda, sem væri til meðferðar á sjúkrahúsi, væri heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Í 4. mgr. 58. gr. laga nr. 24/2000 var því næst kveðið á um að atkvæðagreiðsla samkvæmt 2. mgr. skyldi fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákvæði, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar.

Á grunni 5. mgr. 58. gr. laga nr. 24/2000 setti dómsmála­ráðu­neytið leiðbeiningar nr. 820/2017, um framkvæmd utan­kjörfundar­atkvæða­greiðslu sjúkra o.fl. Í 3. gr. þeirra kemur fram að kjörstjóra beri að kanna í samráði við stjórn hlutaðeigandi stofnunar eða dvalar­heimilis aldraðra og að fengnum upplýsingum um þá sem eru þar til með­ferðar eða eru þar vistmenn eða heimilismenn, hvort ástæða sé til að láta atkvæðagreiðslu fara þar fram og þá hvenær. Ákvörðun um þetta efni skuli tekin eigi síðar en sjö dögum fyrir kjördag og skuli þá birta auglýsingu innan hlutaðeigandi stofnunar eða dvalar­heimilis aldraðra um það hvar atkvæðagreiðsla fer fram og á hvaða tíma. Jafn­framt skuli tilkynna umboðsmönnum framboðslista um atkvæða­greiðsluna fyrirfram. Þá segir að atkvæðagreiðslan skuli hefjast og henni ljúka á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, að höfðu samráði við stjórn stofnunar eða dvalarheimilis aldraðra. Miða skal við að atkvæða­greiðsla fari fram í eitt skipti á hverri stofnun eða dvalar­heimili aldraðra og þess gætt að öllum sem þess óska og rétt hafa gefist hæfi­legt ráðrúm til að nýta sér auglýstan tíma. Atkvæðagreiðsla á sjúkrahúsi skuli fara fram sem næst kjördegi.

Í 4. gr. téðra leiðbeininga er kveðið á um að hlutaðeigandi stofnun eða dvalarheimili aldraðra skuli láta í té hentuga aðstöðu, svo og eftir atvikum aðstoðarfólk, þannig að atkvæðagreiðsla geti gengið sem greiðast fyrir sig og með fyrirskipuðum hætti. Þá segir að kjósanda beri að koma á fund kjörstjóra þar sem atkvæðagreiðsla fari fram, og því aðeins megi atkvæðagreiðsla fara fram á sjúkrastofu eða í herbergjum heimilismanna dvalarheimila og fatlaðs fólks eða vist­manna, að verulegir annmarkar séu á að flytja kjósanda á fund kjör­stjóra. Í III. kafla leiðbeininganna eru almenn ákvæði um framkvæmd kosninganna, þ.á m. um heimild kjósanda til að fá aðstoð við að greiða atkvæði.

 

III

Líkt og rakið er í kvörtun yðar og kemur fram í fyrirliggjandi gögnum málsins hafði atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fyrir sjúklinga Land­spítala verið auglýst innan veggja hans af hálfu sýslumannsins á höfuð­­­borgar­svæðinu. Samkvæmt auglýsingunni fór atkvæðagreiðsla fram á Landspítala í Fossvogi 23. september sl. klukkan 14-17 í tilgreindu herbergi á 4. hæð. Af gögnum málsins er því ekki tilefni til að draga aðra ályktun en að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fyrir sjúklinga Landspítala hafi verið ákveðin og auglýst í samræmi við fyrrgreind ákvæði þágildandi laga nr. 24/2000 og leiðbeiningar dómsmála­ráðu­neytisins. Af þeim sökum og þar sem ekki var kostur á að greiða atkvæði utan kjörfundar á spítalanum á kjördegi eru ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu starfsmanna hans að ekki hafi verið unnt að verða við beiðnum yðar þann dag um að fá að greiða atkvæði innan veggja hans.

Í þeim efnum legg ég enn fremur áherslu á að samkvæmt kvörtun yðar eru ekki gerðar athugasemdir við að yður hafi ekki gefist kostur á að greiða atkvæði utan kjörfundar á spítalanum á auglýstum tíma 23. september sl. Í því samhengi bendi ég þó á að ljóst er að í fyrrgreindum beiningum er gert ráð fyrir að sjúkir kunni að eiga rétt á ýmiss konar aðstoð við að greiða atkvæði þótt þeir séu alvarlega veikir, til að mynda með því að greiða atkvæði á sinni sjúkrastofu og fá aðstoð annarra við að gera það. Þótt það hafi sem fyrr greinir ekki verið hluti af athugun minni að meta hvort Landspítali hafi boðið yður upp á fullnægjandi aðstoð að þessu leyti, í ljósi þess hvernig kvörtun yðar er fram sett, hefur kvörtunin vakið athygli mína á álita­efnum um framkvæmd atkvæðagreiðslna utan kjörfundar á sjúkrahúsum og öðrum líkum stofnunum sem kann að vera ástæða til að taka til nánari athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Þar segir að umboðs­maður geti að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Hann geti jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórn­valds til almennrar athugunar. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda ekki tilkynnt sérstaklega um það, heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

 

IV

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.