Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11686/2022)

Kvartað var yfir að Herjólfur ohf. hefði synjað beiðni um upplýsingar um skyldur yfirskipstjóra félagsins.

Þar sem erindið hafði ekki verið borið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 2. maí sl. sem verður skilin þannig að hún lúti að því að Herjólfur ohf. hafi 23. apríl sl. synjað beiðni yðar  um upplýsingar um skyldur yfirskipstjóra félagsins.

Um rétt almennings til aðgangs að gögnum hjá Herjólfi ohf. fer sam­kvæmt ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sömu laga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Ástæða þess að framangreint er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem ekki verður ráðið að þér hafið borið synjun Herjólfs ohf. undir nefndina eru ekki upp­fyllt skilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar. Ef þér ákveðið að freista þess að skjóta málinu til nefndarinnar kann að reyna á hvort og þá hvaða áhrif það hafi að ekki verður séð að yður hafi verið leiðbeint um kæruheimild til nefndarinnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.