Bótagreiðslur til þolenda afbrota.

(Mál nr. 11455/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota sem hafnaði umsókn um bætur úr ríkissjóði.

Umboðsmaður benti á að niðurstaða nefndarinnar um það hvort tjón sé afleiðing refsiverðs verknaðar samkvæmt hegningarlögum hvíli á mati hennar á sönnunargögnum sem fyrir liggi um málsatvik, eftir atvikum að undangenginni frekari rannsókn hennar á atvikum. Nefndinni yrði því að ljá­ ákveðið svig­rúm þegar hún tæki afstöðu til atvika máls. Ef umtalsverð óvissa væri um þá atburðarás sem leiddi til tjóns, t.d. vegna misvísandi fram­burðar vitna og annarra sem hefðu veitt upp­lýsingar við rann­sókn máls hjá lögreglu, kynni slík aðstaða að hafa áhrif á mat á því hvort skilyrði laga nr. 69/1995 fyrir bótaskyldu ríkis­sjóðs væru uppfyllt. Að þessu virtu og út frá fyrirliggjandi gögnum málsins væru ekki forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferð eða ákvörðun bótanefndarinnar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 20. desember sl. yfir ákvörðun bótanefndar sam­kvæmt lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, 4. nóvember sl. um að hafna umsókn yðar um bætur úr ríkis­sjóði. Sú ákvörðun byggðist á þeim grundvelli að ekki væri unnt að slá því föstu að áverkar sem þér hlutuð 29. júní 2019 hefðu verið til komnir vegna líkamsárásar. Gögn málsins bárust frá bótanefnd 24. febrúar sl.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum í sam­ræmi við ákvæði laganna, enda hafi brotið verið framið innan íslenska ríkisins. Í 6. gr. sömu laga er m.a. kveðið á um að það sé skil­yrði greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðu­lauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Þá kemur fram í 9. gr. laganna að greiða skuli tjónþola bætur samkvæmt lögunum þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur er, hann sé ósakhæfur eða finnist ekki.

Af athuga­semdum að baki 6. gr. laganna verður ráðið að tjónþoli kunni að eiga rétt á bótum þegar sakamál er ekki höfðað gegn tjónvaldi, s.s. vegna sönnunarstöðu máls, að því gefnu að skil­yrðum laganna sé fullnægt (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 3324). Ef slík staða er uppi, þ.e. dómstóll fjallar ekki um það hvort verknaður er refsiverður sam­kvæmt almennum hegningarlögum, verður bótanefndin að meta sjálfstætt hvort tjón sé afleiðing af slíkum verknaði. Það er því skil­yrði slíkrar ákvörðunar að bótanefndinni sé fært samkvæmt fyrir­liggjandi gögnum að slá því föstu að framið hafi verið refsivert hegningarlagabrot með þeim afleiðingum að brota­­þoli hafi orðið fyrir líkamstjóni eða miska.

Niðurstaða bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 um það hvort tjón sé afleiðing refsiverðs verknaðar samkvæmt hegningarlögum hvílir á mati nefndarinnar á sönnunargögnum sem fyrir liggja um málsatvik, eftir atvikum að undangenginni frekari rannsókn hennar á atvikum. Nefndinni verður því að ljá­ ákveðið svig­rúm þegar hún tekur afstöðu til atvika máls eins og þau horfa við nefndinni samkvæmt gögnum málsins. Ef umtalsverð óvissa er um þá atburðarás sem leiddi til tjóns, t.d. vegna misvísandi fram­burðar vitna og annarra sem hafa veitt upp­lýsingar við rann­sókn máls hjá lögreglu, kann slík aðstaða að hafa áhrif á mat á því hvort skilyrði laga nr. 69/1995 fyrir bótaskyldu ríkis­sjóðs séu uppfyllt.

Í ákvörðun bótanefndar í máli yðar kom fram að nefndin teldi atvik málsins mjög óljós. Vitnum og yður bæri lítið saman um hvað hefði átt sér stað í tilgreindu húsi 29. júní 2019 og hefðu vitni m.a. greint frá því að þér hefðuð ekki verið með neina áverka þegar þér yfir­gáfuð húsið. Sá sem kærður var fyrir að veitast að yður hefði neitað sök og sagt yður hafa dottið þegar þér veittust að honum. Það hefði þó ekki haft neina sýnilega áverka í för með sér og skoðun á hinum kærða hefði ekki sýnt áverka á höndum hans. Að mati nefndarinnar væri því of mikil óvissa um málsatvik til þess að unnt væri að slá því föstu að þér hefðuð hlotið áverka vegna líkamsárásar og yrði því að hafna umsókninni.

Að þessu virtu og eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við málsmeðferð eða ákvörðun bótanefndar um að hafna umsókn yðar um greiðslu bóta úr ríkissjóði. Ég vek þó athygli yðar á því að þér getið leitað endurskoðunar á sönnunarmati nefndarinnar fyrir almennum dóm­stólum. Í þeirri ábendingu felst þó engin afstaða mín til þess hver yrði líkleg niðurstaða málsins ef þér kysuð að fara slíka leið.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.