Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11434/2021 og 11456/2021)

Kvartað var yfir úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem staðfesti ákvarðanir Ísafjarðarbæjar að beita ekki þvingunarúrræðum vegna bygginga á tilteknum stað.

Umboðsmaður benti á að í mannvirkjalögum fælist heimild en ekki skylda til að beita þvingunarúrræðum. Eftir að hafa farið yfir kvartanirnar og fylgigögn taldi umboðsmaður ekki forsendur af sinni hálfu til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Ekki yrði betur séð en að þau sjónarmið sem bjuggu að baki ákvörðunum byggingarfulltrúans væru málefnaleg að gættum atvikum málsins. Hafði umboðsmaður þá einnig í huga svigrúm stjórnvalda til mats á því hvort nægt tilefni sé til að beita íþyngjandi þvingunarúrræðum.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvartana yðar sem bárust 10. og 22. desember sl. yfir úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 26. nóvember sl. í málum nr. 54/2021 og 74/2021 þar sem staðfestar voru ákvarðanir byggingarfulltrúa Ísafjarðabæjar um að beita ekki þvingunarúrræðum, annars vegar vegna viðbyggingar við svonefnt og hins vegar smáhýsa sem reist hafa verið á sömu jörð.

Í tilefni af kvörtuninni og því að í úrskurðunum kom fram að þótt leyfi Umhverfisstofnunar þurfi til allra mannvirkjagerðar á Látrum hefði hún ekki nýtt þau þvingunarúrræði sem kveðið væri á um í lögum nr. 60/2013, um náttúruvernd, var stofnuninni ritað bréf 3. febrúar sl. Þar var þess óskað að stofnunin upplýsti, og afhenti öll tiltæk gögn þar að lútandi, um hvort og þá að hvaða leyti hún hefði fjallað um þau mannvirki sem fjallað var um í úrskurðum úrskurðarnefndarinnar. Var þess jafnframt óskað að stofnunin veitti upplýsingar um samskipti hennar við Ísafjarðarbæ að þessu leyti.

Í svari Umhverfisstofnunar 17. febrúar sl. kemur fram að stofnunin hafi ekki fjallað um þau mannvirki sem voru til umfjöllunar í úrskurðum nefndarinnar sérstaklega, hvorki í tengslum við leyfis­umsóknir, umsagnir eða aðra umfjöllun. Þó hafi verið fjallað um erindi Ísafjarðarbæjar þar sem óskað var umsagnar stofnunarinnar á niðurrifi fasteignar á Látrum á fundi Hornstrandarnefndar 4. október 2014 og fyrir­spurn um skúr sem byggður var við lendingu að Látrum án leyfa á fundi Hornstrandarnefndar 29. apríl 2013 en málið muni þá hafa verið í ferli hjá Ísafjarðarbæ. Loks hafi Umhverfisstofnun svarað bréfi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna máls nr. 55/2020 hjá nefndinni en í því hafi nefndin fjallað um kæru A vegna framan­greindrar viðbyggingar við Sjávarhúsið.

II

Í X. kafla laga nr. 160/2010, um mannvirki, er fjallað um rann­sóknir, þvingunarúrræði og viðurlög. Þar segir m.a. í 1. mgr. 55. gr. laganna að sé ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brýtur í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi stöðvað slíkar fram­kvæmdir eða notkun tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkis. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mann­virkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum upp­­dráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Til þess að knýja menn til verka í þessum efnum, eða að láta  af ólögmætu atferli, hefur byggingarfulltrúi samkvæmt 2. mgr. 56. gr. heimild til að beita dagsektum. Byggingarfulltrúi getur jafnframt látið vinna verk það sem hann hefur lagt fyrir að unnið skyldi á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Í athugasemdum við 55. gr. frumvarps þess sem varð að sama ákvæði í lögum nr. 160/2010 segir:

 

„Ákvæðið er efnislega samhljóða 56. gr. gilandi laga en felld hafa verið út þau atriði sem varða skipulagshluta laganna. Þó er lögð til sú breyting á orðalagi varðandi mannvirki sem reist eru í óleyfi að byggingarfulltrúa eða eftir atvikum Byggingarstofnun sé heimilt að krefjast niðurrifs þeirra, að jarðrask sé afmáð eða starfsemi hætt, en ekki skylt eins og nú er. Er eðlilegt að þetta sé metið í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs.“

 

Í framangreindum lagaákvæðum felst heimild byggingarfulltrúa, en ekki skylda, til þess að beita þvingunarúrræðum. Ákvörðun um að beita þvingunar­úrræðum eða eftir atvikum synja beiðni um slíkt er matskennd ákvörðun. Þótt stjórnvaldsákvörðun sé háð mati jafngildir það ekki því að viðkomandi stjórnvald hafi um það óheft mat á hvaða sjónarmiðum það byggir. Þá ber byggingarfulltrúa að hafa í huga eðli þvingunarúrræða við ákvörðun um beitingu þeirra, enda um að ræða íþyngjandi ákvarðanir sem beinast að tilteknum aðilum.

Þótt aðrir kunni að eiga hagsmuni af því að þvingunarúrræðum sé beitt fæ ég ekki séð að tilefni sé til að gera athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar sem fram kemur í úrskurðum hennar að ein­staklingar eða lögaðilar eigi ekki lögvarða kröfu til þess að byggingar­fulltrúi beiti þvingunarúrræðum í einstaka málum. Í úrskurðum nefndarinnar er til þess vísað að ákvörðun byggingarfulltrúa um að hafna kröfum A um beitingu þvingunarúrræða vegna mannvirkjanna hafi verið studd m.a. þeim rökum að nokkuð sé um liðið frá því að þau voru reist eða þeim breytt, framkvæmdunum hafi ekki fylgt veruleg grenndar­áhrif, útsýnisskerðing, skuggavarp eða annað slíkt. Jafnframt hafi verið horft til þess að um íþyngjandi úrræði væri að ræða.

Eftir að hafa farið yfir kvartanir yðar og fylgigögn tel ég ekki forsendur af minni hálfu til að gera athugasemdir við að úrskurðar­nefndin hafi fallist á mat byggingarfulltrúa Ísafjarðabæjar enda fæ ég ekki betur séð en að þau sjónarmið sem búa að baki ákvörðunum hans séu málefnaleg að gættum atvikum málsins. Hef ég þá einnig í huga svigrúm stjórnvalda til mats á því hvort nægt tilefni sé til að beita íþyngjandi þvingunarúrræðum.

 

III

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.