Sektir. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11460/2022)

Kvartað var yfir álagningu dagsekta og synjun ríkisskattstjóra um lækkun eða niðurfellingu þeirra.

Álagning dagsektanna féll utan þess ársfrests sem gefst til að kvarta til umboðsmanns yfir stjórnsýslugerningi. Hvað synjun um lækkun eða niðurfellingu þeirra snerti taldi umboðsmaður ekki tilefni til athugasemda. Ekki yrði ráðið af gögnum málsins að viðkomandi hefði upplýst ríkis­skatt­stjóra um stöðu sína á umræddum tíma og óskað frekari leiðbeininga vegna hennar eða leitað annarra leiða til að skila viðeigandi upp­lýsingum, svo sem með aðstoð utanaðkomandi aðila. Þá hafði umboðsmaður einnig hliðsjón af því að félaginu hafði verið sent bréf á lögheimili þess í mars 2020 um fyrirhugaða beitingu dagsekta og því veittur rúmur frestur til að bæta úr áður en þær hafi verið lagðar á.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 29. desember sl. f.h. félagsins X ehf. sem lýtur að álagningu dagsekta af hálfu ríkisskattstjóra með úrskurði 7. maí 2020 fyrir tímabilið frá og með 13. maí 2020 til 2. júlí 2020 og synjun um lækkun eða niðurfellingu þeirra 2. desember sl. Gögn málsins bárust frá Skattinum 23. mars sl.

Meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis er að hún sé borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Álagning framangreindra dagsekta fellur utan þessa frests og eru því ekki skilyrði að lögum til þess að taka kvörtun yðar að þessu leyti til frekari meðferðar. Eftir­farandi umfjöllun mun því einungis lúta að synjun ríkisskattstjóra um lækkun eða niðurfellingu álagðra dagsekta.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 82/2019, um skráningu raun­verulegra eigenda, getur ríkisskattstjóri lagt dagsektir á skráningar­skyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að óinnheimtar dagsektir falli ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra. Undantekning frá þessu er gerð í 4. mgr. greinarinnar þar sem segir að lækka megi eða fella niður dagsektir hafi utanaðkomandi eða óviðráðanleg atvik valdið því að umbeðnar upp­lýsingar voru ekki lagðar fram eða kröfum um úrbætur ekki sinnt.

Í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 82/2019 segir að túlka beri undantekningu 4. mgr. 14. gr. þröngri lög­skýringu. Nauðsynlegt sé að ríkisskattstjóri geti tekið tillit til óvæntra eða sérstakra atvika eða aðstæðna sem kunna að koma upp í tengslum við álagningu dagsekta. Atvik eða aðstæður þar sem lækkun eða niður­felling kunni að koma til greina séu t.d. óyfirstíganlegar hindranir til þess að verða við kröfu eftirlitsaðila (sjá þskj. 1255 á 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls. 22-23).

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og lagagrundvöll þess tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við synjun ríkisskattstjóra um lækkun eða niðurfellingu dagsekta. Hef ég hér einkum hliðsjón af því að ekki verður af gögnum málsins ráðið að þér hafið upplýst ríkis­skatt­stjóra um stöðu yðar á umræddum tíma og óskað frekari leiðbeininga vegna hennar eða að þér hafið leitað annarra leiða til að skila umræddum upp­lýsingum, svo sem með aðstoð utanaðkomandi aðila. Þá hef ég einnig hliðsjón af því að félaginu var sent bréf á lögheimili þess 6. mars 2020 um fyrirhugaða beitingu dagssekta og því veittur rúmur frestur til þess að bæta úr áður en dagssektir voru lagðar á.

Í ljósi þess sem að framan er rakið er umfjöllun minni um málið hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.