Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11544/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá Þjóðskrá Íslands. Hæfasti umsækjandinn hefði ekki verið ráðinn og fyrir fram ákveðið hver fengi starfið.

Ekki varð annað ráðið en að stofnunin hafi staðið frammi fyrir því að velja milli margra hæfra umsækjenda um starfið og að hún hafi lagt full­nægjandi grund­völl að mati og samanburði á umsækjendum. Af þeim sökum og með vísan til svigrúms stjórnvalda við mat á umsækjendum um opinber störf taldi umboðsmaður ekki efni til að gera athugasemdir við málsmeðferð eða ákvörðun Þjóðskrár.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 7. febrúar sl. yfir ráðningu í starf framkvæmdastjóra upplýsingatækni hjá Þjóðskrá Íslands, en þér voruð meðal umsækjenda um starfið. Kvörtunin byggist á því að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn og niðurstaðan hafi verið ákveðin fyrir fram af hálfu stofnunarinnar þar sem sá sem var ráðinn gegndi þá tíma­bundnu starfi hjá henni. Gögn málsins bárust frá Þjóðskrá 4. mars sl.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Við athugun á málum sem þessum er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem tekur ákvörðun um ráðningu, enda hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga til að meta hæfni þeirra og sýnt fram á að heildstæður samanburður á þeim hafi farið fram. Í þessu máli er það því ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvern átti að ráða sem framkvæmdastjóra upp­lýsinga­tækni hjá Þjóðskrá, heldur fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðun stofnunarinnar hafi verið lögmæt.

Umrætt starf var auglýst laust til umsóknar 17. desember 2020. Í auglýsingunni sagði að Þjóðskrá leitaði að framsæknum og reyndum leið­toga til að stýra málaflokki er varði upplýsingatækni. Undir sviðið heyri fjölþætt hugbúnaðarþróun, tölvurekstur og gagnastýring. Um sé að ræða spennandi starf þar sem viðkomandi gefist tækifæri á að móta stefnu og skipulag, sem og þróa og innleiða nýja ferla. Um helstu verkefni og ábyrgð sagði að það væri stjórnun og skipulagning sviðsins, áætlunargerð, stefnumótun og framkvæmd á stefnu stofnunarinnar, sam­starf og stuðningur við önnur svið stofnunarinnar er varði ábyrgðar­svið sviðsins og þróun og samstarf á sviði upplýsingatækni við ráðu­neyti og stofnanir.

Samkvæmt auglýsingunni voru gerðar eftirfarandi hæfnikröfur:

 

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi, framhaldsmenntun í stjórnun er skilyrði
  • Marktæk stjórnunar- og rekstrarreynsla
  • Marktæk reynsla af stefnumótun, markmiðasetningu og innleiðingu stefnu
  • Reynsla af forritun er kostur
  • Reynsla af straumlínustjórnun er kostur
  • Þekking á upplýsingaöryggis staðlinum ISO27001 er kostur
  • Framúrskarandi samskiptahæfileikar og hæfni í stýringu stórra verkefna og teyma
  • Góðir skipulagshæfileikar, leiðtogahæfni, metnaður, fram­sýni og drifkraftur í starfi
  • Góð íslensku- og enskukunnátta og færni til að tjá sig skipu­lega bæði í ræðu og riti

 

Fjórtán sóttu um starfið og voru fimm þeirra boðaðir í viðtal, en þér voruð ekki í síðarnefnda hópinum. Samkvæmt gögnum málsins byggðist ákvörðun um hverja skyldi boða í starfsviðtal á hlutlægu mati á umsóknargögnum sem gefin voru stig fyrir. Að teknu tilliti til þeirrar stigagjafar stóðuð þér ásamt öðrum umsækjanda að mati Þjóðskrár næst þeim fimm umsækjendum sem voru boðaðir í viðtöl. Að loknum viðtölum ákvað forstjóri stofnunarinnar að bjóða B starfið sem hann þáði.

Af rökstuðningi Þjóðskrár fyrir téðri ákvörðun samkvæmt bréfi 22. febrúar 2021 sem og umsóknargögnum verður ekki annað ráðið en að sá umsækjandi sem var ráðinn í starfið búi yfir umfangsmikilli stjórnunar- og rekstrarreynslu og hafi uppfyllt hæfnikröfur samkvæmt auglýsingu vel. Raunar verður ekki annað ráðið en að það hafi einnig átt við um bæði aðra umsækjendur sem voru boðaðir í viðtöl og þá sem stóðu þeim næst samkvæmt mati Þjóðskrár, þ.á m. yður. Verður því ekki annað ráðið en að stofnunin hafi staðið frammi fyrir því að velja milli margra hæfra umsækjenda um starfið og að hún hafi lagt full­nægjandi grund­völl að mati og samanburði á umsækjendum. Af þeim sökum og með vísan til þess sem fyrr greinir um svigrúm stjórnvalda við mat á umsækjendum um opinber störf tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við málsmeðferð eða ákvörðun stofnunarinnar um að ráða umræddan umsækjanda í starfið.

Með vísan til alls framangreinds lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.