Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11560/2022)

Kvartað var yfir því hvernig staðið er að úthlutun vinnu til fanga á Litla-Hrauni.

Í kjölfar skýringa forstöðumanns fangelsisins taldi umboðsmaður ekki forsendur til frekari athugunar á kvörtuninni.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 14. febrúar sl., sem lýtur að því hvernig staðið er að úthlutun vinnu til fanga í fangelsinu Litla Hrauni, þar sem þér dvölduð þá. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að þér hafið sótt um vinnu í fangelsinu án árangurs á meðan aðrir, sem hófu afplánun síðar, hafi verið teknir fram fyrir yður.

Í tilefni af kvörtuninni var forstöðumanni fangelsisins ritað bréf 16. mars sl., sem þér fenguð sent afrit af, þar sem óskað var eftir að veittar yrðu upplýsingar um það verklag sem væri við lýði við úthlutun vinnu til fanga í fangelsinu, auk þess sem óskað var eftir upplýsingum og gögnum sem varpað gætu nánara ljósi á hvernig atvikum væri háttað í máli yðar.

Svarbréf barst frá forstöðumanni fangelsisins 6. apríl sl. Í bréfinu var m.a. gerð grein fyrir að í sérstöku komuviðtali væru fangar upplýstir um hvernig þeir ættu að bera sig að við að óska eftir vinnu. Í fangelsinu væri sérstakur yfirverkstjóri sem ræði við þá fanga sem sýni því áhuga að fá vinnu. Tekið var fram að framboð á vinnu mætti vera betra og fjölbreyttara, en sjaldgæft væri að fangar sem óski eftir vinnu fái ekki tækifæri til að sinna einhverjum störfum fljótlega eftir komu í fangelsið.

Að því er snerti atvik í máli yðar kom fram að þér hefðuð komið til vistunar 25. nóvember sl. og að yður hefði verið boðið starf í vikunni 5. til 12. desember sl. Samkvæmt tímaskráningum hefðuð þér mætt til vinnu í hálfan dag en þar á eftir ekki mætt frekar. Var tekið fram að ekki væri gengið hart á eftir þeim sem sýndu því ekki áhuga að mæta til vinnu þar sem vinnuframboð væri takmarkað og margir fangar hefðu áhuga á að fá vinnu. Þér hefðuð þá verið fluttur í fangelsið Sogni 21. febrúar sl., þar sem yður hefði verið boðið að sinna tilteknum verkefnum, sem þér hefðuð ekki þegið.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið úr svarbréfi forstöðumanns fangelsisins og að teknu tilliti til þess sem kemur fram í kvörtun yðar tel ég ekki forsendur til að halda áfram athugun minni á henni. Í tilefni af athugasemdum í kvörtun yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsis­sviptra, þ.á m. fanga, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki séu forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.