Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11612/2022)

Kvartað var yfir því að upplýsingar á álagningarseðli um álagningu skatts á erlendar tekjur væru ekki fullnægjandi.

Í ljósi þeirra svara sem umboðsmanni bárust frá Skattinum, þar sem m.a. kom fram að breytingar yrðu innleiddar á næstu 1-2 árum, taldi hann ekki tilefni til að erindið til frekari athugunar að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 18. mars sl. yfir því að upplýsingar á álagningar­seðli um álagningu skatts á erlendar tekjur séu ekki full­nægjandi.

Með kvörtuninni fylgdi úrskurður yfirskattanefndar nr. 33/2022 frá 9. mars sl. þar sem tekið var undir þau sjónarmið yðar að upp­lýsingar á álagningarseðli væru „engan veginn fullnægjandi“ miðað við atvik í tilviki yðar. Í úrskurðinum kom því næst fram að ekki yrði séð að frekari umfjöllun um þetta atriði ætti undir valdsvið nefndar­innar.

Í tilefni af kvörtun yðar var Skattinum ritað bréf 5. maí sl. og þess óskað að embættið upplýsti hvort og þá hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar eða stæði til að gera í tilefni af téðum orðum í framan­greindum úrskurði yfirskattanefndar, þ.á m. hvort til stæði að breyta verklagi við framsetningu álagningarseðla.

Í svarbréfi Skattsins 25. sama mánaðar kom m.a. fram að mögu­leikar á framsetningu upplýsinga á álagningar­seðli um erlendar tekjur takmarkist af þeirri tækni sem nýtt er til að reikna sérstaklega álagningu þeirra einstaklinga sem hafa tekjur erlendis frá. Um sé að ræða um tíu þúsund einstaklinga sem ekki sé unnt að leggja alfarið á með vélrænum hætti. Þess í stað fari fram sértæk handvirk vinnsla í ein­földum reikniforritum sem sniðin hafa verið að breytilegum aðstæðum fólks þannig að sem réttust niðurstaða fáist um álagningu einstakra skattaðila í hverju tilviki. Þessi einföldu „hjálparforrit“ hafi gert ríkisskattstjóra kleift að ljúka tímanlega álagningu á þennan tiltekna hóp einstaklinga rétt eins og aðra, en á hinn bóginn geri forritin ríkis­skattstjóra ekki unnt að skila sundurliðuðum forsendum álagningar í hverju einstöku tilviki til birtingar á álagningarseðli. Því næst sagði í bréfinu:

 „Sökum þess knappa tíma sem álagningu er markaður hefur sömu­leiðis reynst ómögulegt að handvinna þessa sundurliðun til fyllingar álagningarseðlum aðila með erlendar tekjur sem álagningu hljóta með þessum hætti. Þess í stað er komið til móts við óskir einstakra skattaðila um skýringar með því að útbúa sér­stök yfirlit í þeim tilvikum eftir að niðurstöður álagningar hafa verið birtar

Í lok bréfsins var síðan tekið fram að stefnt væri að því „með fyrir­vara um ófyrirsjáanleg aðkallandi forgangsverkefni“ að innleiða á næstu 1-2 árum þær breytingar til vélrænnar vinnslu og birtingar álagningar­­forsendna sem um ræðir til upplýsingar fyrir skattaðila og hagræðingar í vinnslu álagningar opinberra gjalda á einstaklinga.

Í ljósi þeirra svara sem mér hafa nú borist frá Skattinum og rakin hafa verið hér að framan tel ég ekki tilefni til að taka erindi yðar til frekari athugunar að svo stöddu. Lýk ég því umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.