Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 11638/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi um að hætta rannsókn máls sem ríkissaksóknari staðfesti. Athugasemdir lutu að meðferð málsins og þeirri niðurstöðu að ágreiningur þess væri einkaréttarlegs eðlis.

Af gögnum málsins varð ráðið að rannsókn þess hefði verið hætt þar sem hin kærða háttsemi væri ekki refsiverð samkvæmt lögum. Taldi umboðsmaður sig hvorki hafa forsendur til að gera athugasemdir við meðferð málsins né niðurstöðu ríkissaksóknara.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 31. mars sl. yfir ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi 15. desember sl. um að hætta rannsókn máls nr. 318-2021-19353 með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð saka­mála, sem ríkissaksóknari staðfesti 22. mars sl. Athugasemdir yðar lúta að meðferð málsins og þeirri niðurstöðu að ágreiningur þess sé einka­réttarlegs eðlis.

Samkvæmt 2. málslið 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 getur lög­regla, sé rannsókn hafin, hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Samkvæmt þessu hefur löggjafinn veitt lögreglu ákveðið svigrúm til mats á því hvort hvort grundvöllur sé fyrir því að halda rannsókn sakamáls áfram.

Þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum svigrúm til mats við ákvörðun sína beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvöld hafi gætt málsmeðferðarreglna, bæði lögfestra og ólög­festra, hvort byggt hafi verið á málefnalegum sjónarmiðum og hvort forsvaranlegar ályktanir hafi verið dregnar af gögnum þess. Svo sem áður greinir ber í þessu sambandi að hafa í huga að ríkissaksóknari og aðrir hand­hafar ákæruvalds hafa ákveðið svigrúm, meðal annars að virtu eðli og alvarleika ætlaðs brots og sönnunarstöðu, til að meta hvort fjár­munum, mannafla og öðrum takmörkuðum gæðum skuli varið í þágu rann­sóknar.

Af gögnum málsins verður ráðið að rannsókn þess var hætt af hálfu lögreglustjórans á Suðurlandi á þeim grundvelli að hin kærða háttsemi væri ekki refsiverð samkvæmt lögum. Ríkissaksóknari tók undir það mat og benti á að ágreiningur málsins væri milli ættingja um breytingu/lagfæringu á leiði og því einkaréttarlegs eðlis. Að virtum gögnum málsins og fyrrgreindu svigrúmi þeirra stjórnvalda sem í hlut eiga tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við meðferð málsins eða niðurstöðu ríkissaksóknara.

Í samræmi við framagreint lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.