Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Gjaldtöku vegna áskriftar að spariskírteinum ríkissjóðs verður skotið til fjármálaráðherra.

(Mál nr. 690/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 23. október 1992.

A kvartaði yfir því, að honum hefði frá og með 1. september 1992 verið gert að greiða mánaðarlega afgreiðslugjald vegna áskriftar hans að spariskírteinum ríkissjóðs. Í bréfi, er ég ritaði A 23. október 1992 vegna athugana minna á kvörtun hans, tók ég fram, að við úrlausn málsins þyrfti að fjalla um þýðingu samnings hans um áskriftina, um heimild að lögum til þess að heimta umrætt gjald, svo og um það, hver hefði verið bær að ákveða það og hvernig hagað hafi verið birtingu ákvörðunar um gjaldtökuna. Síðan sagði svo í bréfi mínu til A:

„Þjónustumiðstöð ríkisverðbréfa starfar á grundvelli 2. tl. 3. gr. laga nr. 43/1990 um Lánasýslu ríkisins og er miðstöðin deild í Lánasýslu ríkisins, sem heyrir undir fjármálaráðherra. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki áður fellt úrskurð sinn í málinu. Það er skoðun mín, að mál það, er kvörtun yðar lýtur að, verði borið undir úrskurð fjármálaráðuneytisins og brestur því skilyrði til þess, að ég geti, að svo stöddu, tekið kvörtun yðar til frekari athugunar.“

Ég benti A á, að hann gæti leitað til mín á ný, ef hann teldi sig enn órétti beittan að fenginni niðurstöðu fjármálaráðuneytisins.