Börn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11669/2022)

Kvartað var yfir afgreiðslu félagsþjónustu Sveitarfélagsins Árborgar á erindi um að sveitarfélagið staðfesti formlega við tilgreinda manneskju að viðkomandi hefði ekki sent tilkynningu um hana til barnaverndar á árinu 2021.

Samkvæmt gögnum frá sveitarfélaginu var málið til meðferðar hjá innviðaráðuneytinu. Voru því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um málið.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 25. apríl sl. fyrir hönd A vegna afgreiðslu félagsþjónustu Sveitarfélagsins Árborgar á erindi hans um að sveitarfélagið staðfesti formlega við tilgreinda manneskju að hann hafi ekki sent tilkynningu um hana til barnaverndar sveitar­félagsins á árinu 2021. 

Með bréfi 24. maí sl. var óskað eftir því að sveitarfélagið afhenti afrit af gögnum sem vörpuðu ljósi á samskipti málsins og upplýsti umboðsmann á grundvelli hvaða sjónarmiða afgreiðsla þess á fyrirspurn A hefði byggst á. Degi síðar upplýsti sveitarfélagið að lögmaður, sem starfar á sömu lögmannsstofu og þér, hefði 19. apríl sl. fyrir hönd A auk annarra kært fyrrgreinda ákvörðun til inn­viða­ráðuneytisins á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt gögnum sem bárust frá sveitarfélaginu er málið nú til meðferðar hjá ráðuneytinu.

 Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta málinu til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af ákvæðinu leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns fyrr en það hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og er athugun á henni því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef A telur sig enn beittan rangsleitni að fenginni úrlausn ráðu­neytisins getur hann leitað til umboðsmanns að nýju með kvörtun þar að lútandi.