Lögreglu- og sakamál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11673/2022)

Kvartað var almennt yfir kynþáttafordómum innan stjórnvalda sem starfa að löggæslu.

Ekki varð séð að kvörtunin snerti beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra og því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um hana.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 3. maí sl. sem verður skilin þannig að hún lúti almennt að kynþáttafordómum innan stjórnvalda sem starfa á sviði löggæslu.

Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir eftirlit umboðsmanns samkvæmt tilgreindum ákvæðum laganna, geti kvartað af því tilefni til umboðs­manns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Þar sem ekki verður ráðið að það eigi við um kvörtunarefni yðar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari með­ferðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.