Heilbrigðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11703/2022)

Kvartað var yfir einelti af hálfu læknis á Landakoti.

Umboðsmaður benti á viðeigandi leiðir til að koma kvörtun sem þessari á framfæri við stjórnvöld. Þar sem erindið hafði ekki verið lagt í þann farveg og kæruleið tæmd voru ekki forsendur til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 18. maí sl. Af henni verður ráðið að hún lúti að einelti sem þér teljið yður hafa orðið fyrir af hálfu nafn­greinds sérfræðilæknis á Landakoti.

Vegna kvörtunar yðar bendi ég yður á að í VII. kafla laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, er að finna ákvæði um athugasemdir og kvartanir sjúklinga vegna meðferðar. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laganna skal athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Í 2. mgr. sömu greinir segir að vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð geti hann beint kvörtun til land­læknis þar um.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreint er sú að á meðal ski­lyrða þess að umboðsmaður Alþingis taki mál til athugunar er að endanleg niðurstaða stjórnvalda í málinu liggi fyrir. Þetta leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og sjónarmiðum sem búa að baki því ákvæði um að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að þér hafið leitað til yfirstjórnar Landspítalans með athugasemdir yðar eða kvartað til landlæknis og málið lagt í farveg innan stjórnsýslunnar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis. Fari svo að þér leitið til umræddra stjórnvalda vegna málsins og teljið yður enn beittan rangsleitni að því loknu getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.