Börn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11705/2022)

Kvartað var yfir innheimtu Gældsstyrelsen á meðlagsskuld í Danmörku.

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til stjórnsýslu annarra ríkja voru ekki forsendur til að hann fjallaði um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. maí 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 28. maí sl. yfir innheimtu Gældsstyrelsen á meðlagsskuld yðar í Danmörku, en samkvæmt bréfum 6. apríl og 24. maí sl. hefur stjórnvaldið óskað eftir liðsinni Innheimtustofnunar sveitar­­­félaga.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Svo sem leiðir af þessu ákvæði sem og 3. gr. sömu laga tekur starfssvið umboðsmanns ekki til stjórnsýslu annarra ríkja. Það fellur því utan við starfssvið mitt að fjalla um ákvarðanir danskra stjórnvalda um meðlagsskuld yðar og innheimtu hennar.

Samkvæmt samningi frá 1962 milli Norðurlandanna um innheimtu meðlaga skal ákvörðun um skyldu til greiðslu meðlags, sem tekin er af þar til bærum aðila í einu samningsríkjanna, viðurkennd án sérstakrar staðfestingar í öðrum ríkjum sem aðild eiga að samningnum, sbr. lög nr. 93/1962. Í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, kemur fram að stofnunin hafi heimild til að annast inn­heimtu á meðlögum greiddum erlendis vegna íslenskra ríkisborgara. Með hliðsjón af framangreindu tel ég kvörtun yðar ekki gefa nægilegt tilefni til nánari athugunar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.