Fullnustugerðir og skuldaskil. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11693/2022)

Kvartað var yfir samskiptum við Arion banka og beðið um gjafsókn.

Þar sem starfsemi bankans fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um málið á þeim forsendum. Ennfremur urðu gögn sem fylgdu með kvörtuninni ekki skilin á annan hátt en fyrir lægi úrskurður héraðsdóms og starfsvið umboðsmanns tekur ekki heldur til starfa dómstóla. Hvað beiðni um gjafsókn snerti var viðkomandi bent á að leita til dómsmálaráðherra með beiðnina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar frá 12. maí sl. Verður ráðið að hún lúti fyrst og fremst að samskiptum yðar við Arion banka hf. vegna lánssamnings sem þér gerðuð árið 2007, þá sérstaklega í aðdraganda nauðungarsölu á tilgreindri fasteign yðar, auk þess sem þér gerið athugasemdir við hvernig staðið var að nauðungarsölunni hjá sýslumanninum á höfuðborgar­svæðinu.

Af þessu tilefni er rétt að taka fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga kemur fram að undir starfssvið umboðsmanns falli ríki og sveitarfélög en að það nái einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Ástæða þess að yður er bent á þetta er að Arion banki hf. er hlutafélag og starfar á einkaréttarlegum grundvelli. Starfsemi bankans fellur því utan starfssviðs umboðsmanns enda felur hún ekki í sér beitingu opinbers valds sem þessum aðila hefur verið fengið með lögum. Bresta því skilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til athugunar að þessu leyti.

Kvörtun yðar og þau gögn sem henni fylgdu verða þá ekki skilin á annan hátt en þann að fyrir liggi úrskurður héraðsdóms um sama efni og hún lýtur að. Af því tilefni er yður bent á að samkvæmt lögum nr. 85/1997 tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla, sbr. b-lið 4. mgr. 3. gr. laganna. Í ákvæðinu felst að umboðsmaður tekur hvorki niðurstöður dómstóla til endurskoðunar né þau málsatvik eða málsástæður sem þegar hafa hlotið meðferð fyrir dómstólum. Þar af leiðandi eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að því marki sem hún lýtur að atvikum máls sem hafa þegar verið dæmd af dómstólum. Að öðru leyti verður ekki annað ráðið en að atvik þau sem lýst er í kvörtun yðar hafi átt sér stað fyrir nokkrum árum síðan. Af því tilefni er yður bent á að meðal skilyrða þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns er að hún sé borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Af beiðni yðar um gjafsókn verður ráðið að þér séuð að vísa til d-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, en þar segir að umboðsmaður geti lagt til við ráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar tel ég ekki tilefni til að ljúka máli yðar með þeim hætti. Ég bendi yður þó á að yður er fært að beina umsókn um gjafsókn til dómsmálaráðherra á grundvelli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt 3. mgr. 125. gr. laganna skal umsókn um gjafsókn vera skrifleg og beint til ráðherra. Í henni skal greint skýrlega frá máli sem hún varðar og rökstutt að skilyrðum fyrir gjafsókn sé fullnægt. Um skilyrði gjafsóknar er nánar fjallað í 1. mgr. 126. gr. laganna. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu umsókn yðar ætti að hljóta hjá ráðuneytinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.