Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Sölu Skógræktar ríkisins á landspildu verður skotið til landbúnaðarráðherra.

(Mál nr. 685/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 17. nóvember 1992.

A og B eigendur jarðarinnar M kvörtuðu yfir því, að Skógrækt ríkisins hefði selt X-bæ landspildu úr landi jarðarinnar M. Töldu A og B, að við sölu spildunnar hefði ekki verið gætt ákvæða jarðalaga nr. 65/1976 um forkaupsrétt. Af bréfum Skógræktarinnar og X-bæjar varð ráðið, að á því hefði verið byggt, að A og B hefðu ekki nytjað umrædda landspildu og að X-bær hefði átt forkaupsrétt að spildunni.

Í bréfi mínu til A og B, dags. 17. nóvember 1992, sagði m.a. svo:

„Það er skoðun mín, að ágreiningi þeim, sem er um það, hvort Skógrækt ríkisins hafi farið að lögum við sölu umræddrar landspildu, verði skotið til úrskurðar landbúnaðarráðuneytisins. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er eigi unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki áður fellt úrskurð sinn í málinu. Brestur því skilyrði til þess að ég geti, að svo stöddu, tekið kvörtun yðar til frekari athugunar.“

Ég benti A og B á, að þau gætu leitað til mín á ný, að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins, teldu þau sig enn órétti beitt.