Heilbrigðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11728/2022)

Kvartað var yfir frávísun landlæknis á kvörtun til embættisins.

Þar sem frávísunin hafði ekki verið borin undir heilbrigðisráðherra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til erindis yðar 14. júní sl. sem lýtur að því að landlæknir hafi 1. þessa mánaðar vísað frá kvörtun yðar til embættisins 30. apríl sl. yfir því að tilgreindur sálfræðingur hafi við gerð mats, sem dómkvaddur maður, sýnt af sér vanrækslu og með því gert mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu. Téð niðurstaða landlæknis byggðist á því að kvörtun yðar lyti ekki að störfum sálfræðingsins sem teldust til heilbrigðis­þjónustu.

Kvörtun yðar til embættis landlæknis var sett fram á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Samkvæmt 1. mgr. greinar­innar er landlækni skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Í 2. mgr. sömu greinar er kveðið á um að heimilt sé að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna ætlaðrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Í málsgreininni kemur einnig fram að notendum heilbrigðisþjónustu sé jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðis­þjónustu hafi verið ótilhlýðileg. Í 6. mgr. 12. gr. laganna segir að heimilt sé að kæra málsmeðferð landlæknis samkvæmt ákvæðinu til heilbrigðis­ráðherra.

Ástæða þess að framangreind lagaákvæði eru rakin er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þótt ekki sé fyllilega ljóst af fyrrgreindu bréfi 1. júní sl. í hvaða lagalega farveg kvörtun yðar var lögð af hálfu landlæknis tel ég, með vísan til fyrrgreindra ákvæða 12. gr. laga nr. 41/2007, að ekki séu uppfyllt skilyrði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 til að taka erindi yðar til frekari meðferðar fyrr en að fenginni afstöðu heilbrigðisráðherra til málsins.

Með vísan til alls framangreinds læt ég máli yðar lokið, að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér kjósið að skjóta afstöðu landlæknis til heilbrigðisráðherra og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hans getið þér leitað til umboðs­manns Alþingis að nýju með kvörtun þar að lútandi.