Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11628/202)

Kvartað var yfir því að Hagvangur ehf. hefði synjað beiðni um upplýsingar og rökstuðning vegna ráðningar í starf hjá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði ses.

Þar sem hvorki starfsemi Hagvangs né VIRK falla undir starfssvið umboðsmanns voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 23. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 25. mars sl. yfir því að Hagvangur ehf. hafi synjað beiðni yðar um upplýsingar og rökstuðning vegna ráðningar í starf ráðgjafa hjá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði ses., en þér voruð meðal umsækjenda um starfið. Samkvæmt því sem greinir í kvörtun yðar, sem beinist að bæði Hagvangi ehf. og sjóðnum, byggðist synjun félagsins á því að ekki væri skylt að verða við beiðni yðar þar sem VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður ses. væri ekki ríkisstofnun.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns að jafnaði til stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997.

VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignarstofnun sem var komið á fót af samtökum og fyrirsvarsaðilum á vinnumarkaðnum, bæði almennum og opinberum, sbr. 4. og 19. gr. skipulagsskrár sjóðsins. Svo sem rakið er í síðarnefndu greininni gilda um sjóðinn ákvæði laga nr. 60/2012, um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfs­endurhæfingarsjóða, og nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Að jafnaði falla sjálfseignarstofnanir ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis og í framkvæmd embættisins hefur verið lagt til grundvallar ekki verði ráðið að VIRK – Starfsendur­hæfingarsjóður ses. sé hluti af þeirri stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga sem falli undir eftirlit þess eða honum hafi sem einkaréttar­legum aðila verið falið að taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. bréf umboðs­manns 30. maí 2018 í máli nr. 9713/2018. Þá er Hagvangur einkahlutafélag og því einnig einka­réttar­legur aðili. Það fellur því ekki heldur undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar að því marki sem hún lýtur að Hagvangi ehf.

Samkvæmt framangreindu fellur kvörtunarefnið ekki undir starfs­svið umboðsmanns Alþingis og lýk ég því athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.