Börn.

(Mál nr. 11218/2021)

Kvartað var yfir Innheimtustofnun sveitarfélaga og afgreiðslum stjórnar hennar á beiðnum um niðurfellingu meðlagsskuldar.

Umboðsmaður benti á að það væri komið undir sjálfstæðri ákvörðun stjórnarinnar hvort heimild til ívilnunar sé beitt. Þá kom fram að hluti skuldar hefði þegar verið afskrifaður. Að virtum skýringum stofnunarinnar og gögnum málsins að öðru leyti taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við ákvarðanir stjórnarinnar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 9. júlí 2021 sem beinist að Innheimtustofnun sveitarfélaga og afgreiðslum stjórnar stofnunarinnar á beiðnum yðar um niðurfellingu meðlagsskuldar yðar. Ég hef skilið kvörtun yðar á þá leið að hún lúti að því að stofnunin hafi ekki staðið við þá samninga sem gerðir hafa verið við yður í tengslum við greiðslu skuldarinnar. Jafnframt snúi athugasemdir yðar að afgreiðslum stjórnar stofnunarinnar á beiðnum yðar um niðurfellingu skuldarinnar.

Með bréfum til stofnunarinnar 20. ágúst og 13. janúar sl. var óskað eftir nánar tilgreindum gögnum málsins og skýringum. Umbeðin gögn og svör bárust 23. nóvember og 26. janúar sl. Þá hafið þér gert athugasemdir við svör stofnunarinnar.

 

II

Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni og öðrum gögnum málsins hafið þér á undanförnum árum komið á framfæri beiðnum um ívilnandi úrræði vegna meðlagsskuldar yðar. Þannig liggur fyrir að í ágúst 2017 samþykkti stjórn Innheimtustofnunar að þér greidduð einfalt meðlag á mánuði í sex mánuði, í febrúar og september 2018 eitt og hálft meðlag á mánuði um sex mánaða skeið og í september 2019 tvöfalt meðlag á mánuði.

Jafnframt liggur fyrir að þegar í ágúst 2020 höfðuð þér staðið við samning samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, í þrjú ár, sem samkvæmt 4. málslið greinarinnar er á meðal skilyrða þess að meðlagsskuld verði felld niður í heild eða að hluta.

Samkvæmt gögnum málsins óskuðuð þér 27. ágúst 2020 og 4. janúar og 25. ágúst 2021 eftir niðurfellingu skuldarinnar. Í samþykkt stjórnar stofnunarinnar 18. september 2020 vegna hinnar fyrstnefndu beiðni segir:

 

„Afstöðu til niðurfellingar frestað. Umsækjandi greiði tvö meðlög á mánuði í þrjú ár. Það athugast að umsækjandi á enn möguleika á að sækja um niðurfellingu skuldar.“

 

Í samþykktum stjórnar 18. janúar og 13. september 2021 var niðurstaða stjórnar í september 2020 staðfest, en þó þannig að í september 2021 samþykkti hún að mánaðarlegar greiðslur yðar yrðu lækkaðar í eitt meðlag á mánuði í sex mánuði.

Á meðal gagna málsins eru jafnframt afrit af tilkynningum stofnunarinnar til yðar 3. júlí 2018 og 4. ágúst 2020 þess efnis að tímabundnar samþykktir stjórnar stofnunarinnar sem þá voru í gildi væru að falla úr gildi.

 

III

Um Innheimtustofnun sveitarfélaga gilda samnefnd lög nr. 54/1971. Samkvæmt 3. gr. laganna er hlutverk stofnunarinnar að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlög sem Tryggingastofnun hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Skal stofnunin skila Tryggingastofnun innheimtufé mánaðarlega og skulu þau ganga upp í meðlagsgreiðslur hennar.

Í 5. gr. laganna er fjallað um meðlagainnheimtu stofnunarinnar hjá meðlagsskyldum barnsfeðrum. Samkvæmt því sem þar greinir annast stofnunin meðlagainnheimtu hjá barnsfeðrum. Er barnsföður skylt að endurgreiða stofnuninni meðlag með barni sínu, þegar og með þeim hætti, sem stofnunin krefst. Einnig segir að barnsfaðir skuli greiða dráttar­vexti af því sem gjaldfallið er greiði hann ekki meðlag innan eins mánaðar frá því meðlagskrafa féll í gjalddaga. Stjórn stofnunarinnar sé þó heimilt að víkja frá töku dráttarvaxta ef um sérstaka félagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara.

Jafnframt stendur þeim meðlags­greiðendum sem hafa safnað meðlagsskuldum sökum tiltekinna félagslegra eða fjárhagslegra erfiðleika til boða að sækja sérstaklega til stjórnar stofnunarinnar um tímabundna samninga um greiðslu á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega. Þá er stjórninni að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum heimilt að fella niður skuld í heild eða að hluta. Heimild þessi byggist á 4. mgr. 5. gr., eins og henni var breytt með lögum nr. 71/1996. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögunum kemur fram að markmið breytinganna hafi verið að veita stjórn stofnunarinnar heimild til að gera slíka tímabundna samninga við skuldara um greiðslu lægri fjárhæðar í því skyni að gera fleiri skuldara að skilamönnum (Alþt. 1995-1996 A-deild, bls. 5071).

Heimildir stjórnar samkvæmt fyrrgreindri 4. mgr. 5. gr. fela í sér frávik frá hinni lögbundnu skyldu meðlagsskylds foreldris að standa stofnuninni með ákveðnum hætti skil á meðlögum sem Trygginga­stofnun hefur greitt með börnum þess. Er heimildin bundin því skilyrði að fyrir hendi séu hjá viðkomandi meðlagsgreiðanda félagslegir og/eða fjárhagslegir erfiðleikar. Af ákvæðinu verður ráðið að stjórn stofnunarinnar hafi tvenns konar heimildir til að koma til móts við skuldara vegna félagslegra og fjárhagslegra erfiðleika. Annars vegar geti stofnunin gert samninga við skuldara sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega þegar til skuldar­innar hefur verið stofnað sökum þeirra félagslegu erfiðleika sem tilgreindir eru. Hins vegar hafi stjórnin sjálfstæða heimild samkvæmt 3. málslið greinarinnar til þess að fella niður áfallinn höfuðstól eða hluta hans ef þeir erfiðleikar sem tilgreindir eru í 1. málslið eru áframhaldandi. Síðarnefnda heimildin er þó jafnframt bundin því viðbótarskilyrði að stjórnin telji fullljóst að aðstæður skuldara séu með þeim hætti að hann geti eigi greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, auk þess sem það er jafnframt skilyrði að skuldari hafi þegar staðið við samning samkvæmt 1. málslið greinarinnar í a.m.k. þrjú ár.

Samkvæmt framgreindu er ljóst að það er undir sjálfstæðri ákvörðun stjórnar stofnunarinnar komið hvorri heimild 4. mgr. 5. gr. verði beitt, fallist hún á annað borð á beiðni skuldara um ívilnandi úrræði. Ákvörðun stjórnar, sem afgreidd er með stjórnarsamþykkt og einhliða tilkynningu til skuldara, að því leyti er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að gæta verður ákvæða laganna og eftir atvikum annarra óskráðra reglna stjórnsýsluréttarins þegar slík ákvörðun er tekin. Á það einnig við komi til endurupptöku eða afturköllunar ákvörðunar.

Af gögnum málsins verður ráðið að beiðnum yðar um ívilnandi úrræði og niðurfellingu meðlagsskuldar yðar hafi fylgt gögn sem vörpuðu ljósi á fjárhagslegar aðstæður yðar, s.s. afrit af skatt­framtölum yðar og eiginkonu yðar. Í skýringum stofnunarinnar hefur komið fram að m.a. hafi verið horft til greiðslusögu yðar til stofnunarinnar og tekið tillit til þess að hluti skuldar yðar hefur nú þegar verið afskrifaður, s.s. vegna fyrningar.

Með framangreint í huga, og að virtum skýringum stofnunarinnar og gögnum málsins að öðru leyti, tel ég ekki forsendur af minni hálfu til að gera athugasemdir ákvarðanir stjórnar hennar í tengslum við meðlagsskuld yðar, enda fæ ég ekki betur séð en að þær hafi verið byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Horfi ég þá einkum til þess að samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971 sæta samningar sem stjórn gerir við skuldara endurskoðun reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti, svo og þess svigrúms sem játa verður stjórninni við mat á því hvort skilyrðum niðurfellingar skuldar sé fullnægt í hverju máli fyrir sig. Lýk ég því umfjöllun minni um málið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.