Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 11537/2022)

Kvartað var yfir því að Garðabær hefði ekki afhent öll gögn um skólagöngu dóttur viðkomandi í grunnskólum sveitarfélagsins og lutu athugasemdir m.a. að því að það hefði ekki yfirsýn um gögnin. Einnig voru gerðar athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem kæru var vísað frá.

Fram kom að fleiri þúsund blaðsíður af gögnum hefðu verið afhentar og taldi umboðsmaður ekki tilefni til nánari athugunar á því gagnvart Garðabæ. Hvað nefndina snerti taldi hann ekki ástæðu til að gera athugasemdir við úrskurð hennar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 7. febrúar sl. yfir því að Garðabær hafi ekki afhent yður öll gögn um skólagöngu dóttur yðar í grunnskólum sveitarfélagsins og lúta athugasemdir yðar m.a. að því sveitarfélagið hafi ekki yfirsýn um gögnin. Samkvæmt kvörtuninni kallið þér eftir því að umboðsmaður Alþingis taki málið til skoðunar en þar sem að sveitar­félaginu skorti yfirsýn teljið þér eðlilegast að það afhendi yður öll gögn sem þér eigið tilkall til líkt og um væri að ræða nýja gagna­beiðni. Í kvörtuninni eru einnig gerðar athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 1057/2022 frá 3. febrúar sl. en með honum var kæru yðar vísað frá. Gögn málsins bárust frá nefndinni 22. mars sl.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af þessum fyrirmælum og öðrum ákvæðum laganna leiðir að það er hlutverk umboðs­manns að hafa eftirlit með störfum stjórnvalda eftir að mál hafa verið leidd til lykta innan stjórnsýslunnar. Í samræmi við það er það ekki hlutverk hans að afgreiða beiðnir um aðgang að gögnum í stjórnsýslunni, heldur að hafa eftirlit með því að stjórnvöld hafi leyst úr þeim lögum samkvæmt. Af þessum sökum verður ekki vikið frekar að beiðni yðar um að Garðabær afhendi yður öll gögn líkt og um væri að ræða nýja gagna­beiðni.

Af fyrirliggjandi gögnum sem fylgdu kvörtun yðar og bárust frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál verður ekki annað ráðið en að þér hafið beint ítrekuðum og umfangsmiklum beiðnum til Garðabæjar um aðgang að gögnum hjá sveitarfélaginu, þ.á m. um skólagöngu dóttur yðar, sbr. t.d. bréf sveitarfélagsins 7. júlí sl. og umsögn þess 2. september sl. Verður m.a. ráðið að sveitarfélagið hafi afhent yður gögn sem telja fleiri þúsund blaðsíður og það sé afstaða þess að yður hafi verið afhent þau gögn sem þér hafið beðið um, mörg oftsinnis. Eftir að hafa kynnt mér fyrirliggjandi gögn og að teknu tilliti til þess sem greinir í kvörtun yðar tel ég ekki nægilegt tilefni til að taka hana til nánari athugunar að því marki sem hún beinist að því hvernig sveitarfélagið hefur afgreitt upplýsingabeiðnir yðar eða staðið almennt að skráningu upplýsinga um mál yðar.

Í tilefni af athugasemdum yðar við fyrrgreindan úrskurð úrskurðar­nefndar um upplýsingamál bendi ég á að í 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 kemur fram að sé þess óskað sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildi þegar óskað sé aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Ekki sé þó skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr., en þar er fjallað um skyldu aðila, sem falla undir gildissvið laganna, til að veita aðgang að öðrum hlutum gagna en falla undir takmarkanir á upplýsinga­rétti. Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upp­lýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildi um synjun á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Í ljósi framan­greindra lagaákvæða og þess sem kemur fram í téðum úrskurði tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við hann.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.