Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11540/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds.

Samkvæmt gögnum málsins, þ. á m. ljósmyndum, og svörum bílastæðasjóðs voru ekki forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu hans.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 6. febrúar sl. er lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 25. nóvember sl. um álagningu stöðubrots­gjalds fyrir brot gegn 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í tilkynningu um álagningu stöðubrotsgjaldsins kom fram að brotanúmer væri „25. Gangstétt, gangstígar, umferðareyjar og svipaðir staðir (25)“.

Í kvörtun yðar takið þér fram að bifreiðinni hafi verið lagt innan lóðarmarka fasteignar yðar á svæði sem hafi um langt skeið verið nýtt sem bílastæði. Af hálfu bílastæðasjóðs var sú athugasemd ekki tekin til greina með vísan til þess að svæðið væri ekki skilgreint sem bílstæði í deiliskipulagi.

Í tilefni af kvörtun yðar var Bílastæðasjóði ritað bréf 25. mars sl. Svör sjóðsins og athugasemdir yðar við þau bárust 7. og 28. apríl sl.

 

II

Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga má eigi stöðva skráningarskylt ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Sama á við um umferðareyjar, grassvæði og aðra svipaða staði.

Í skýringum Bílastæðasjóðs kemur fram að afstaða sjóðsins sé sú að bifreiðinni hafi verið lagt á þann máta að brotið hafi verið gegn 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga. Af svörum sjóðsins verður ráðið að sú afstaða byggist á því að bifreiðinni hafi verið lagt á „öðrum svipuðum stöðum“ í skilningi ákvæðisins.

 Við mat á því hvort ökutæki sé lagt á „öðrum svipuðum stöðum“ kann að þurfa að líta til þess hvort umbúnaðar og frágangur við umferðarmannvirki gefi nægilega skýrt til kynna afmörkun milli þeirra svæða sem ætluð eru fyrir umferð og stöðu bifreiða og þeirra svæða sem ekki má leggja bifreiðum, sbr. til hliðsjónar bréf umboðsmanns Alþingis 7. september 2012 í máli nr. 7015/2012, sem birt er á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Samkvæmt kvörtun yðar og gögnum málsins, en á meðal þeirra eru ljósmyndir, var bifreið yðar lagt í skoti við anddyri fasteignar yðar til hliðar við gangstétt. Þá liggur fyrir að vestan við fasteignina er bílskúr með sérstakri innkeyrslu. Að þessu virtu og með hliðsjón af svörum Bílastæðasjóðs tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við þá afstöðu sjóðsins að bifreiðinni hafi verið í andstöðu við fyrirmæli 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga. Hef ég þar einkum í huga að ekki verður séð að umbúnaður og frágangur við umrætt svæði gefi til kynna að það sé ætlað fyrir umferð og stöðu bifreiða.

 

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.