Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11564/2022)

Kvartað var yfir ráðningu Reykjanesbæjar í starf.

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en bærinn hefði lagt mat á allar umsóknir með vísan til sömu hæfnisviðmiða. Ekki yrði séð að það hefði verið bersýnilega óforsvaranlegt. Að því virtu og gögnum málsins að öðru leyti taldi umboðsmaður ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

I

Vísað er til kvörtunar yðar 17. febrúar sl. yfir ákvörðun Reykjanesbæjar um ráðningu í starf ráðgjafaþroskaþjálfara hjá velferðarsviði sveitarfélagsins. Lýtur kvörtunin einkum að því að þér teljið yður búa yfir meiri menntun og reynslu en sá umsækjandi sem ráðinn var í starfið auk þess sem þér gerið athugasemdir við þá ákvörðun sveitarfélagsins að boða yður ekki í viðtal.

Gögn málsins bárust umboðsmanni 9. mars sl. samkvæmt beiðni þar um en með þeim fylgdu jafnframt viðbótarupplýsingar af hálfu Reykjanesbæjar um ráðningarferlið.

 

II

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Við athugun á málum sem þessum er umboðsmaður ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem ákvað hvaða umsækjanda skyldi ráða í starf, enda hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum rétti að stjórnvald njóti svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi sé hæfastur hafi það aflað fullnægjandi upplýsinga til að meta hæfni þeirra og sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram. Í þessu máli er það því ekki hlutverk umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í téð starf, heldur að fjalla um hvort meðferð málsins og ákvörðun Reykjanesbæjar hafi verið lögmæt.

Í auglýsingu Reykjanesbæjar um starfið kom fram að leitað væri að ráðgjafaþroskaþjálfara til að ganga til liðs við hóp metnaðarfullra sérfræðinga í barna- og fjölskylduteymi velferðarsviðs bæjarins þar sem lögð væri áhersla á snemmtæka íhlutun og þverfaglegt samstarf í málefnum fjölskyldna. Jafnframt kom fram að til greina kæmi að ráða starfsmann með aðra háskólamenntun sem nýttist í starfi og að starfið krefðist víðtækrar þekkingar á sviði félagslegrar þjónustu, málefna fatlaðs fólks og málefnum barna og fjölskyldna. Þá voru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur skilgreindar:

 

  • Þroskaþjálfi eða önnur háskólamenntun sem nýtist í starfi.
  • Þekking og reynsla á málefnum fatlaðra kostur.
  • Þekking og reynsla á sviði félagsþjónustu sveitarfélaga kostur.
  • Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu kostur.
  • Þekking og reynsla af vinnu með fólki af erlendum uppruna kostur.
  • Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og sterk leiðtogafærni.
  • Rík þjónustulund, áhugi og metnaður til að veita framúrskarandi þjónustu.
  • Frumkvæði, skipulögð vinnubrögð og hæfni til þverfaglegs samstarfs.
  • Góð íslensku- og enskukunnátta.
  • Hreint sakavottorð.

 

Umsækjendur um starfið voru sex. Samkvæmt gögnum málsins fór mat á umsækjendum fram í tveimur skrefum; fyrst á grundvelli umsókna þar sem valdir voru tveir umsækjendur sem best þóttu uppfylla auglýstar kröfur og því næst með viðtölum við þá. Við mat á umsóknum var stuðst við stigagjöf þar sem gefin voru stig á fimm stiga kvarða (0-4) fyrir fjóra hæfnisþætti; háskólamenntun sem nýttist í starfi, þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðra, félagsþjónustu sveitarfélaga og opinberri stjórnsýslu. Fengu þrír fyrstnefndu hæfnisþættirnir 30% vægi og sá síðastnefndi 10% vægi í heildarmatinu. Þá voru þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar við úthlutun stiga nánar útfærð á matsblaði. Samkvæmt niðurstöðu matsins hlutu þeir umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal annars vegar 75% og hins vegar 63% af mögulegum heildarstigum á meðan sá sem næst kom hlaut 33%.

Að virtu því svigrúmi sem stjórnvald hefur við val á sjónarmiðum sínum og áherslum, svo og þeirri aðstöðu að margir umsækjendur kunna að uppfylla auglýstar kröfur, er ekki tilefni til að gera athugasemdir við að beitt sé samræmdri aðferð til að afmarka í fyrstu hóp hæfustu umsækjenda til að gegna starfinu. Með þessum fyrirvara hefur umboðsmaður almennt ekki heldur gert athugasemdir við það fyrirkomulag að frummat á umsækjendum grundvallist á tiltölulega hlutlægum atriðum, svo sem upplýsingum um menntun og starfsreynslu í ferilskrá, og í framhaldinu sé eingöngu ákveðinn fjöldi umsækjenda boðaður í viðtal og komi til frekara mats. Kjósi stjórnvald að styðjast við stigagjöf við mat á umsóknum ber því eftir sem áður að gæta þess að fram fari heilstæður samanburður á raunverulegri starfshæfni umsækjenda á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og að jafnræði sé þar fylgt, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 21. október 2021 í máli nr. F79/2018.

Í svarbréfi Reykjanesbæjar kemur fram að ákveðið hafi verið að styðjast við fyrrnefnda matsflokka þar sem örðugt væri að meta aðra hæfnisþætti á grundvelli umsóknargagna, en þeir hafi verið metnir í viðtölum. Við mat á menntun hafi verið lagt til grundvallar að mikilvægt væri að hún lyti að ráðgjöf og umsjón með einstaklingum í bágri stöðu. Þannig væri menntun á sviði leik- og grunnskóla og sálfræði prýðileg fyrir almenna þekkingu en hún væri þó skör lægri en félagsráðgjöf, félagsfræði og fjölskyldráðgjöf. Það hefði verið mat ráðningarteymisins að fenginni niðurstöðu stigagjafarinnar að tveir efstu umsækjendurnir skæru sig úr í hópi umsækjenda vegna stigafjölda og þekkingar og reynslu í störfum að málefnum fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að Reykjanesbær hafi, við úrlausn þess hverjir umsækjenda kæmu til frekari álita með boði um viðtal, lagt mat á umsóknir allra með vísan til sömu hæfnisviðmiða. Verður að fallast á að þessi viðmið hafi staðið í nægilegum tengslum við það markmið frummatsins að velja hóp hæfustu umsækjendanna til frekara mats og ákvörðun Reykjanesbæjar hafi rúmast innan svigrúms bæjarins. Þá verður ekki séð að mat á umsóknum hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt. Að þessu virtu og að teknu tilliti til þeirra umsóknargagna sem liggja fyrir eru því ekki efni til annars en að líta svo á að ákvörðun Reykjanesbæjar um að útiloka aðra en áðurgreinda tvo umsækjendur og frekara mat á hæfni þeirra hafi byggst á heilstæðum samanburði á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða sem sett voru fram í auglýsingu um starfið. Tel ég því ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á málsmeðferð Reykjanesbæjar og niðurstöðu um hvaða umsækjandi hafi veri hæfastur í starf ráðgjafaþroskaþjálfara.

 

III

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.