Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Málskot til stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs.

(Mál nr. 662/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 17. september 1992.

A bar fram kvörtun varðandi rétt sinn til atvinnuleysisbóta úr atvinnuleysistryggingasjóði. A hafði fengið þau svör hjá Tryggingastofnun ríkisins, að hann ætti ekki rétt til atvinnuleysisbóta, þar sem hann hefði stundað sjálfstæðan atvinnurekstur. Í bréfi mínu til A, dags. 17. september 1992, benti ég honum á, að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 96/1990, um atvinnuleysistryggingar, gæti umsækjandi um bætur, sem ekki vildi sætta sig við ákvörðun úthlutunarnefndar eða Tryggingastofnunar ríkisins, skotið máli sínu til stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs. Benti ég honum á að fara þessa leið, þar sem ekki væri unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds og það hefði ekki fellt úrskurð sinn í málinu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Tók ég fram í bréfi mínu til A, að honum væri heimilt að leita til mín á ný, að fenginni niðurstöðu stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs, teldi hann sig þá enn órétti beittan.