Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11584/2022)

Kvartað var yfir því að Mosfellsbær hefði ekki brugðist við athugasemdum vegna vegaaðstæðum á tilteknum stað.

Af svari sveitarfélagsins til umboðsmanns varð ráðið að erindunum hefði verið svarað og jafnframt fundað með viðkomandi vegna þeirra. Vakti umboðsmaður athygli hans á að teldi hann hættu stafa af umferð um umræddan veg kynni að vera unnt að beina erindi þess efnis til lögreglustjóra. Hvað frágang á lóð snerti kynni að vera fært að beina erindi vegna þess til byggingarfulltrúa og eftir atvikum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. júní 2022, sem hljóðar svo:

Vísað er til kvörtunar yðar 3. mars sl. er lýtur að því að Mosfellsbær hafi ekki brugðist við athugasemdum sem þér komuð á framfæri með erindum 26. ágúst 2019, 23. mars 2020 og 3. febrúar sl. og lutu að vegaaðstæðum við [X-götu]17 og 19-21. Í kvörtuninni gerið þér einkum athugasemdir við það að sveitarfélagið hafi ekki aflagt veg sem liggur norðan við fasteignirnar eða gert viðlítandi ráðstafanir við frágang lóðarmarkanna á því svæði sem tilheyri sveitarfélaginu og þér teljið valda slysahættu.

Í tilefni af kvörtuninni var Mosfellsbæ ritað bréf 9. mars sl. þar sem þess var óskað að sveitarfélagið veitti upplýsingar um hvort erindi yðar hefðu borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Í svarbréfi Mosfellsbæjar 29. þess mánaðar, sem hér fylgir hjálagt í ljósriti, eru samskipti sveitarfélagsins við yður rakin. Af þeim verður ráðið að erindum yðar hafi verið svarað og jafnframt hafi verið fundað með yður vegna þeirra.

Í ljósi framangreinds tel ég rétt að vekja athygli yðar á þeirri óskráðu reglu stjórnsýsluréttarins að skriflegum erindum ber að svara skriflega, nema svars sé ekki vænst eða ljóst sé að borgarinn sætti sig við munnleg svör. Í henni felst að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða niðurstaða hafi fengist í því. Í reglunni felst hins vegar ekki að sá sem ber upp erindi til stjórnvalds eigi rétt á tiltekinni úrlausn mála sinna eða þeim efnislegu svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir. Það ræðst af eðli erindis, því málefnasviði sem það tilheyrir og máls­atvikum að öðru leyti hvaða kröfur verða leiddar af lögum, skráðum og óskráðum, og vönduðum stjórnsýsluháttum til þeirra svara sem stjórn­völd veita vegna slíkra erinda borgaranna.

Eftir að hafa kynnt mér þau svör Mosfellsbæjar er lúta að beiðni yðar um að nánar tiltekinn vegur verði aflagður tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þess þáttar kvörtunar yðar. Hef ég þar einkum í huga það svigrúm sem sveitarfélög hafa til að bregðast við erindum sem þessum og að ekki verður annað ráðið en að málefnaleg sjónarmið hafi legið þeim til grundvallar. Ég vek þó athygli yðar á að í 4. mgr. 15. gr. vegalaga nr. 80/2007 segir að telji viðkomandi lögreglustjóri vegi, viðhaldi eða merkingu vegar, sem opinn sé almenningi til frjálsrar umferðar, svo áfátt að hætta geti stafað af geti hann gefið veghaldara fyrirmæli um að gera úrbætur á veginum og vegagerð eða bannað umferð um veginn þar til úrbætur hafi verið gerðar. Teljið þér hættu stafa af umferð um veginn kann yðar því að vera unnt að beina erindi þess efnis til lögreglustjóra.

Vegna þeirra athugasemda sem fram koma í kvörtun yðar og lúta að frágangi á lóðarmörkum bendi ég yður á að í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki, er m.a. kveðið á um að sé ásigkomulagi, frá­gangi, umhverfi, eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábóta­vant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingar­fulltrúa, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum upp­dráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Þá segir í 59. gr. laga nr. 160/2010 að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt framangreindu kann yður að vera fært að beina erindi vegna þessa til byggingarfulltrúa og eftir atvikum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, að fenginni afstöðu hans. Teljið þér yður enn rangsleitni beittan, að fenginni úrlausn þessara stjórnvalda, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.