Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11668/2022)

Kvartað var yfir því að eftirlitsnefnd fasteignasala hefði ekki brugðist við erindum.

Samkvæmt gögnum málsins hafði nefndin ítrekað brugðist við og að teknu tilliti til tengsla viðkomandi við málið taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við afgreiðslu hennar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 27. apríl sl. yfir því að eftirlitsnefnd fasteignasala hafi ekki brugðist við erindum yðar um álit nefndarinnar 22. febrúar 2021 í máli nr. K-019-20 með fullnægjandi hætti, en ekki verður ráðið að þér hafið átti aðild að málinu. Óskað var eftir frekari gögnum frá yður 9. júní sl. sem bárust samdægurs.

Samkvæmt gögnum málsins hefur nefndin brugðist við erindum yðar 14. og 26. apríl, 3. maí og 6. september 2021. Að virtum svörum nefndarinnar og að teknu tilliti til tengsla yðar við umrætt mál er rétt að taka fram að það er óskráð regla stjórnsýsluréttar að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svara sé ekki vænst. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Í reglunni felst á hinn bóginn ekki að stjórnvöldum sé skylt að svara efnislega öllum almennum erindum sem þeim berast heldur ræðst réttur aðila að þessu leyti af öðrum réttarreglum, svo sem leiðbeiningarreglu stjórn­sýslu­réttar, vönduðum stjórnsýsluháttum sem og af eðli erindisins.

Í ljósi framangreinds og eftir að kynnt mér erindi yðar til nefndarinnar tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við það hvernig hún hefur brugðist við þeim. Með hliðsjón af því sem að framan greinir lýk ég því umfjöllun minni um mál yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.