Félagsþjónusta og félagsleg aðstoð. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11707/2022)

Kvartað var yfir dvöl á hjúkrunarheimili. Annars vegar vegna langvarandi bið eftir viðeigandi búsetuúrræði og hins vegar þjónustu og aðbúnaði á hjúkrunarheimilinu.

Umboðsmaður leiðbeindi viðkomandi með að bera erindið undir Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, og þá eftir atvikum með aðstoð réttindagæslumanns fatlaðs fólks, áður en kvörtunin gæti komið til sinna kasta.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 30. maí sl. sem lýtur að dvöl yðar á hjúkrunarheimili. Af kvörtuninni verður ráðið að hún sé tvíþætt og snúi annars vegar að langvarandi bið eftir viðeigandi búsetuúrræði og hins vegar þjónustu og aðbúnaði á hjúkrunarheimilinu, nánar tiltekið [...].

Í lögum nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, er kveðið á um að stofnunin fari með eftirlit með þjónustu sem veitt sé m.a. á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 2. mgr. 1. gr. fyrrgreindu laganna. Notendur þjónustu sem lýtur eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála geta beint kvörtun yfir gæðum þjónustunnar til stofnunarinnar. Í kvörtun skal koma fram að hverjum hún beinist og lýsing á atvikum sem eru tilefni kvörtunar, sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga.

Í framkvæmd umboðsmanns Alþingis hefur, með hliðsjón af sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, verið litið svo á að þegar með lögum hefur verið komið á fót sérstökum eftirlitsaðila innan stjórnsýslunnar til að fjalla um tilteknar kvartanir eða kærur, sé rétt að slík leið hafi verið farin áður en kvörtun vegna sama máls kemur til umfjöllunar hjá umboðsmanni. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til leiðréttingar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Vakin er athygli á því að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, skulu réttindagæslumenn vera fötluðu fólki innan handar við réttindagæslu hvers konar. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 973/2012, um réttindagæslumenn fatlaðs fólks, kemur m.a. fram að hlutverk réttindagæslumanns sé að veita þeim fatlaða einstaklingi, sem á erfitt með að gæta réttinda sinna sjálfur, aðstoð og ráðgjöf, telji hinn fatlaði einstaklingur eða einhver sem stendur honum nærri að réttindi hans séu ekki virt sem skyldi. Hægt er að hafa samband við réttindagæslumann fatlaðs fólks í síma 554-8100 eða með tölvupósti á netfangið postur@rettindagaesla.is.

Yður er í samræmi við framangreint fært að freista þess að bera mál yðar undir Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, eftir atvikum með aðstoð réttindagæslumanns fatlaðs fólks. Ef þér kjósið að gera slíkt og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu stofnunarinnar getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.