Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11708/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði dómsmálaráðuneytisins vegna synjunar á reynslulausn.

Ekki varð annað ráðið en niðurstaða náðunarnefndar hefði byggst á því að ekki væru skilyrði til að veita reynslulausn og taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við það. 

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 30. maí sl., f.h. A, yfir málsmeðferð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og úrskurði dómsmála­ráðuneytisins 31. mars sl. í máli nr. DMR21120110 þar sem umbjóðanda yðar var synjað um reynslulausn.

Í 5. mgr. 80. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, segir að fanga, sem á mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað, verði að jafnaði ekki veitt reynslulausn, enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur á því ekki af völdum fangans. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laganna skal náðunarnefnd veita ráðherra rökstudda umsögn um hvort ákvörðun Fangelsismálastofnunar í máli sem varðar synjun á samfélagsþjónustu eða synjun á reynslulausn skuli staðfest, felld úr gildi eða henni breytt. Umsögn nefndarinnar er bindandi fyrir ráðherra.

Eftir að hafa kynnt mér úrskurð dómsmálaráðuneytisins verður ekki annað ráðið en að niðurstaða náðunarnefndar hafi byggst á því að ekki væru fyrir hendi skilyrði til að þess að veita A reynslu­lausn m.a. í ljósi þess að hann hefði verið handtekinn 12. mars 2021 og það mál væri til rannsóknar. Þar sem hann sótti um reynslulausn einungis nokkrum mánuðum síðar er ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þá niðurstöðu að umsókninni hafi verið synjað. Af þessari afstöðu leiðir enn fremur að ég tel ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar að því marki sem hún beinist að málsmeðferðartíma hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.