Heilbrigðismál. Covid-19.

(Mál nr. 11712/2022)

Kvartað var yfir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins vegna frávísunar stjórnsýslukæru sem laut að þeirri afstöðu embættis landlæknis að ekki væri unnt að verða við kröfu um bann við bólusetningu barns gegn Covid-19.

Umboðsmaður taldi ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að svör landlæknis í málinu hefðu ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun sem sætti kæru til þess heldur svör við almennu erindi.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar 1. júní sl. sem þér komuð á framfæri f.h. A yfir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins 16. maí sl.

Með úrskurðinum var stjórnsýslukæru A vísað frá en hún laut að þeirri afstöðu embættis landlæknis að ekki væri unnt að verða við kröfu hennar um bann við bólusetningu barns hennar gegn Covid-19. Krafan byggðist á 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 en þar er fjallað almennt um inntak sameiginlegrar forsjár barns. Þar kemur fram, í fyrri málslið 2. mgr., að ef foreldrar búa ekki saman hafi það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Þar segir jafnframt, sbr. síðari málslið málsgreinarinnar, að forsjárforeldrar skuli ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta. A fer ásamt föður barnsins með sameiginlega forsjá þess en barnið á lögheimili hjá honum.

Eftir því sem fram kemur í úrskurðinum og þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni rituðuð þér Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og embætti landlæknis bréf 21. janúar sl. þar sem kröfu A um bann við bólusetningu var komið á framfæri. Í svörum landlæknis dagana 25. og 27. sama mánaðar var greint frá því að ekki væri mögulegt að verða við beiðni A og synja um bólusetningu við þær aðstæður að faðir barnsins kæmi með barninu á bólusetningarstað. Hins vegar væri unnt að skrá athugasemd um að forsjárforeldri væri andsnúið bólusetningu sem væri sýnileg þegar mætt væri með barnið í bólusetningu. Var það niðurstaða ráðuneytisins að svör landlæknis hefðu ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun sem sætti kæru til ráðu­neytis­ins heldur svör við almennu erindi.

Eftir að hafa kynnt mér úrskurð ráðuneytisins og gögn málsins að öðru leyti tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við fyrrgreinda afstöðu ráðuneytisins á þá leið að svör embættis landlæknis við erindi A um framkvæmd bólusetninga vegna Covid-19 hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Athugast í því sambandi að með þeirri niðurstöðu hef ég enga afstöðu tekið til efnislegs svars landlæknis við erindi A eða þess hvort og þá hvenær ákvörðun um bólusetningu fyrir hönd barns undir 16 ára aldri sé háð samþykki beggja forsjárforeldra við þær aðstæður að þau fara með sameiginlega forsjá en barn á lögheimili eða fasta búsetu hjá öðru þeirra, sbr. 28. gr. a barnalaga nr. 76/2003, eins og lögunum hefur síðar verið breytt. Tel ég því ekki tilefni til að taka úrskurð ráðuneytisins til frekari athugunar.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég máli þessu lokið.