Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11714/2022)

Kvartað var yfir aldursfordómum við afgreiðslu atvinnuumsókna og m.a. gerð athugasemd við að kennitala þurfi að fylgja þeim.

Umboðsmaður benti á að kærunefnd jafnréttismála væri sérstakur eftirlitsaðili að lögum til að fjalla um mál sem þessi. Rétt væri að leita þangað fyrst áður en kvörtun vegna sama máls gæti komið til umfjöllunar hjá sér.  

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 2. júní sl. yfir aldursfordómum við afgreiðslu atvinnuumsókna, en athugasemdir yðar beinast m.a. að þeirri kröfu að kennitala þurfi að fylgja slíkum umsóknum.

Í tilefni af erindi yðar tek ég fram að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur kvartað af því tilefni til umboðsmanns sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í síðarnefnda ákvæðinu felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Þá tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laganna. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Að því leyti sem kvörtun yðar beinist almennt að fyrirkomulagi atvinnuumsókna og úrræðum fyrir háskólanema eru því ekki uppfyllt skilyrði til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar.

Að því marki sem kvörtun yðar kann að beinast að ákveðnum ákvörðunum í garð yðar við ráðningu í starf bendi ég á að lög nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, gilda um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð m.a. aldri, þ.m.t við ráðningar í starf, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Í III. kafla laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er fjallað um kærunefnd jafnréttismála. Samkvæmt 8. gr. laganna tekur nefndin til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., en þar undir falla m.a. lög nr. 86/2018, og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin.

Í framkvæmd umboðsmanns Alþingis hefur, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, verið litið svo á að þegar með lögum hefur verið komið á fót sérstökum eftirlitsaðila innan stjórnsýslunar til að fjalla um tilteknar kærur eða kvartanir, eins og í þessu tilviki, sé rétt að slík leið hafi verið farin áður en kvörtun vegna sama máls kemur til umfjöllunar hjá umboðsmanni. Ef þér teljið tilefni til að leita til nefndarinnar og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.