Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11717/2022)

Kvartað var yfir málshraða Kjara- og mannauðssýslu ríkisins í tilefni af beiðni ríkislögmanns um að stofnunin veitti umsögn um bótakröfu á hendur íslenska ríkinu.

Þar sem höfðað hafði verið mál gegn ríkinu til innheimtu þeirra bóta sem krafist var í málinu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 3. júní sl., fyrir hönd A, yfir málshraða Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, sem er sérstök ráðu­neytisstofnun á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, í tilefni af beiðni ríkislögmanns um að stofnunin veitti umsögn um þá kröfu 20. desember sl. að íslenska ríkið greiddi A bætur af nánar til­greindum ástæðum.

Í gögnum sem fylgdu kvörtun yðar kemur ekki fram hvenær umsagnar Kjara- og mannauðssýslu ríkisins var óskað en helst verður ráðið að það hafi verið eftir 10. mars sl. og fyrir þann dag hafi umsagna annarra stjórnvalda verið óskað. Þá hafði verið upplýst að von væri á umsögninni að liðnum maímánuði á þessu ári. Samkvæmt því sem greinir í kvörtuninni hefur A nú höfðað mál gegn ríkinu til innheimtu þeirra bóta sem hann hafði áður krafið það um greiðslu á.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt b-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa dómstóla. Af þessu ákvæði leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál í tilefni af kvörtunum sem snerta sömu atvik eða ákvarðanir og eru til meðferðar fyrir dómstólum. Af þeim sökum og þar sem nú er ljóst að um málsmeðferðina fer eftir lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þ.á m. hvað snertir rétt íslenska ríkisins til að taka afstöðu til krafna A og kanna framkomin gögn, tel ég ekki skilyrði til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.