Máli lokið með áliti, dags. 10. nóvember 1993.
A kvartaði yfir þeirri ákvörðun Húsnæðisstofnunar ríkisins að synja umsókn hans um húsbréfalán vegna greiðsluerfiðleika. Þá taldi A, að umfjöllun stofnunarinnar um umsókn hans hefði tekið of langan tíma. A keypti íbúðarhúsnæði í desember 1989 og fékk afsal fyrir því í júlílok 1990. Hinn 31. janúar 1991 fór hann fram á fyrirgreiðslu húsnæðisstofnunar vegna greiðsluerfiðleika. Taldi A sig hafa fengið loforð fyrir greiðsluerfiðleikaláni snemma árs 1991, sem staðfest hefði verið með bréfi húsnæðisstofnunar 27. júlí 1991. Með bréfi, dags. 17. október 1991, hefði stofnunin hins vegar tilkynnt honum, að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikalánum, sem sett voru í reglugerð um húsbréfaviðskipti.
Umboðsmaður gerði grein fyrir því skilyrði sem sett er í lögum og reglugerð, að skipti á húsbréfum fyrir fasteignaveðbréf leysi greiðsluvanda umsækjanda. Taldi hann, að af málsgögnum yrði ekki annað ráðið en að í apríl 1991 hafi A verið talinn fullnægja nauðsynlegum skilyrðum, en í október 1991 hafi slík breyting orðið á aðstæðum A, að ekki væru lengur fyrir hendi skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaláni. Taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við það mat húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar, að þá hafi A ekki uppfyllt þau skilyrði bráðabirgðaákvæðis laga nr. 124/1990 og 5. gr. reglugerðar nr. 468/1991, að skipti á húsbréfum fyrir fasteignaveðbréf leystu greiðsluvanda hans og að greiðslubyrðin eftir skuldabréfaskiptin yrðu að jafnaði um eða undir 20% af heildarlaunum hans. Þá taldi umboðsmaður bréf húsnæðisstofnunar frá 17. júlí 1991 eitt sér ekki fela í sér loforð um fyrirgreiðslu til A vegna greiðsluerfiðleika hans, heldur væri þar lýst ákveðinni lausn á vanda hans, sem byggst hefði á upplýsingum hans sjálfs og því, að tilteknum skilyrðum varðandi kröfuhafa yrði fullnægt.
Meðferð máls A hjá húsnæðisstofnun tók alls átta og hálfan mánuð. Umboðsmaður taldi miklu skipta, að mál af þessu tagi væru afgreidd fljótt og örugglega. Hins vegar hefði gagnaöflun verið nauðsynleg og jafnframt yrði að telja, að fyrrnefnd lagaákvæði gerðu ráð fyrir, að umsækjandi aflaði tilskilinna gagna. Eins og málavöxtum var háttað, svo sem umboðsmaður gerði nánari grein fyrir, taldi hann ekki tilefni til að gera athugasemdir við þann tíma, sem umsókn A var til meðferðar hjá húsnæðisstofnun.
I. Kvörtun.
Hinn 14. september 1992 leitaði til mín B, hæstaréttarlögmaður, og bar fram kvörtun fyrir hönd A. Laut kvörtun A að þeirri ákvörðun Húsnæðisstofnunar ríkisins frá 17. október 1991, að synja umsókn hans um húsbréfalán vegna greiðsluerfiðleika.
Með kaupsamningi 12. desember 1989 keypti A húseignina X. Í athugasemdum í umsókn um húsbréfalán til húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins frá 31. janúar 1991 lýsti A því, að hann væri í verulegum fjárhagsörðugleikum vegna kaupa á X. Á yfirliti Húsnæðisstofnunar ríkisins 25. apríl 1991 yfir skuldir A var gerð grein fyrir heildarskuldum hans að fjárhæð 6.270.000 kr. Í athugasemdum starfsmanns stofnunarinnar var ritað á útreikningana "ok húsbr." Húsnæðisstofnun ríkisins ritaði A bréf 27. júlí 1991. Þar segir:
"Farið hefur verið yfir umsókn yðar um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika, umsókn nr. [...].
Lagt er til að eftirfarandi lán verði greidd upp með húsbréfum:
[...]
Auk þess er hægt að gera upp vanskil við Byggingarsjóð ríkisins, Lífeyrissjóð [...] og [Z] og koma þessum lánum í skil. Skilyrt veðleyfi þarf þó að koma vegna fjárnáms á vegum [T]. Einnig þarf að fá veðleyfi frá Hitaveitu [...] þess efnis að Hitaveitan gefi eftir 6. veðrétt til Húsnæðisstofnunar og fari sjálf niður á þann sjöunda. Sparisjóð [...] og Lífeyrissjóð [...] og koma þeim í skil.
Þessi tillaga er gerð með þeim fyrirvara að viðkomandi kröfuhafar séu reiðubúnir að taka Húsbréf upp í skuldir sem greiðslu og að fjárhæð fasteignaveðbréfs fari ekki yfir 75% af matsverði íbúðar, að frádregnum áhvílandi lánum, uppfærðum, sem eru á veðrétti á undan fasteignaveðbréfi. Til að svo megi verða þurfa kröfuhafar að samþykkja skuldbreytinguna. Meðfylgjandi eru eyðublöð fyrir samþykki kröfuhafa.
Eftirstöðvar þessara lána skv. þeim gögnum sem liggja fyrir framreiknuð til dagsins í dag eru samtals u.þ.b. 4.900.000 þýðir að til að greiða þá upphæð í húsbréfum þarf u.þ.b. 6.294.000, sé tekið mið af afföllum húsbréfa sem eru nú.
Vinsamlegast sendið undirritaðri síðan meðfylgjandi eyðublöð sem fyrst til þess að afgreiðsla umsóknarinnar tefjist ekki frekar.
Ofangreindar tölur eru fengnar af þeim gögnum sem fylgja umsókn þinni, en mikilvægt er að heildartala skuldar komi fram á meðfylgjandi eyðublöðum fyrir samþykki kröfuhafa."
Á yfirliti Húsnæðisstofnunar ríkisins yfir skuldastöðu A 1. október 1991 kemur fram, að skuldir hans séu 7.114.248,- kr. Á yfirlitið hefur verið ritað af starfsmanni stofnunarinnar að "synjun gr.lán. leysi ekki vandann". Hinn 17. október 1991 ritaði Húsnæðisstofnun ríkisins A svohljóðandi bréf:
"Ráðgjafastöð Húsnæðisstofnunar ríkisins hefur yfirfarið umsókn yðar. Komið hefur í ljós að þér uppfyllið ekki skilyrði sem sett hefur verið í reglugerð um húsbréfaviðskipti, það er að:
- Greiðsluerfiðleikalán í húsbréfakerfinu leysi vanda umsækjanda.
Ráðgjafastöðin er að sjálfsögðu reiðubúin til viðræðna við yður vegna greiðsluerfiðleika yðar.
Meðfylgjandi er reglugerð um húsbréfaviðskipti vegna greiðsluerfiðleika íbúðareigenda."
Hinn 10. desember 1991 ritaði C, lögmaður A, Húsnæðisstofnun ríkisins bréf. Þar segir meðal annars:
"Eftir því sem ég kemst næst fékk [A] loforð Húsnæðisstofnunar ríkisins fyrir láni snemma árs 1991. Var það m.a. staðfest með bréfi dags. 27. júlí 1991. Með bréfi dags. 17. október s.l. var honum hins vegar tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði, sem sett hafi verið í reglugerð um húsbréfaviðskipti og að greiðsluerfiðleikalán leysi vanda umsækjanda.
Þar sem húsbréfaafgreiðsla Húsnæðisstofnunar dróst og kom loks alls ekki til missti [A] húseign sína, [X] á nauðungaruppboði. Kaupandi var Búnaðarbanki Íslands.
Með tilliti til framangreinds óskast nú upplýst hverjir lánsmöguleikar [A] eru hjá Húsnæðisstofnun ríkisins vegna húsnæðiskaupa og hvort unnt er að aðstoða hann við kaup á fyrra húsnæði á ný með húsbréfum, samþykki Búnaðarbanki Íslands slíkt?
..."
Með bréfi 10. apríl 1992 óskaði lögmaður A á ný eftir aðstoð Húsnæðisstofnunar ríkisins við kaup A á fasteigninni X. Í bréfi lögmannsins gerði hann grein fyrir helstu málavöxtum og vísaði þar meðal annars til áðurgreinds bréfs Húsnæðisstofnunar ríkisins frá 27. júlí 1991. Í bréfi lögmannsins sagði meðal annars:
"Í ljósi þessa bréfs treysti [A] því, að hann fengi allt að kr. 6.294.000.- í húsbréfum til að gera upp og ganga frá sínum málum. Voru í anda bréfsins þegar hafnar viðræður við kröfuhafa. Tóku þeir málaleitan [A] vel. Þegar loks sá fyrir endann á samningum og uppgjöri við veð- og kröfuhafa var [A] hins vegar, með bréfi Húsnæðisstofnunar ríkisins dags. 17. október 1991, skyndilega og fyrirvaralaust tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði, sem sett hefðu verið í reglugerð um húsbréfaviðskipti, það er að greiðsluerfiðleikalán í húsbréfakerfinu leysi vanda umsækjanda. Frekari aðstoð Húsnæðisstofnunar til lausnar á greiðsluerfiðleikum hans fékkst því í framhaldi af þessu alls ekki, þrátt fyrir ábendingar um fyrri staðfestingu og bréf svo og ítrekaðar óskir þar um. Að fenginni þessari niðurstöðu gáfust kröfuhafar upp á frekari bið og kröfðust uppboðssölu á fasteign [A], [X]. Fór lokasala fram 25. október 1991 en kaupandi eignarinnar á uppboði var Búnaðarbanki Íslands, [...]."
Í svarbréfi Húsnæðisstofnunar ríkisins 15. maí 1992 segir meðal annars:
"Þegar á allt er litið er kjarni málsins sá, að vitaskuld getur skjólstæðingur yðar, rétt eins og hver annar, óskað eftir greiðslumati í sínum viðskiptabanka eða -sparisjóði og að svo búnu gert kauptilboð í hvaða íbúð sem honum sýnist, að því tilskildu, að verðið sé í samræmi við niðurstöðu greiðslumatsins. Þessi leið á að vera jafn bein og greið fyrir skjólstæðing yðar og aðra landsmenn, hvað sem forsögu þessa máls líður. Og þegar erindið kemur síðan hingað verður að sjálfsögðu reynt að afgreiða það bæði fljótt og vel."
II. Athugun umboðsmanns Alþingis.
Með bréfi 18. september 1992 óskaði ég eftir því, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu látnar í té nauðsynlegar upplýsingar og gögn um málið. Umbeðnar upplýsingar og gögn bárust mér með bréfi Húsnæðisstofnunar ríkisins 29. september 1992. Með bréfi stofnunarinnar fylgdi ennfremur greinargerð húsbréfadeildar stofnunarinnar frá 24. september 1992. Þar segir:
"Helstu þættir málsins:
Þann 8. febrúar 1991 barst stofnuninni umsókn frá [A] og kemur fram á umsókn hans að hann sé í verulegum fjárhagsörðugleikum vegna kaupa sinna á [X]. Umsókn þessi var á eyðublaði um umsókn um mat á greiðslugetu. Með þeim gögnum, sem bárust var afrit af kaupsamningi [A] og Búnaðarbanka Íslands um kaup þess fyrrnefnda á [X] og er sá kaupsamningur dagsettur 12. desember 1989. Einnig fylgdi afrit af afsali vegna kaupa [A] á [X], dagsett 31. júlí 1990. Þar eð kaup [A] á [X] voru um garð gengin þegar hann sækir um hjá okkur (sbr. afsal) var ekki um að ræða að þau kaup væru lánshæf í húsbréfakerfinu. Hins vegar var Húsbréfadeild heimilt á þessum tíma að skipta á fasteignaveðbréfum og húsbréfum vegna greiðsluerfiðleika íbúðareigenda. Haft hefur verið samband við [A] áður en umsókn hans var færð yfir í greiðsluerfiðleikavinnslu og leitað eftir hans vilja í því máli, ef svo hefði ekki verið gert hefði [A] þó strax fengið synjun á beiðni um skuldabréfaskipti þar eð kaupin voru löngu um garð gengin og þar með ekki lánshæf í húsbréfakerfinu.
Þann 25. apríl 1991 var gengið frá bráðabirgðalista yfir skuldir [A] á grundvelli þeirra gagna, sem hann hafði sent okkur. Skv. þessum gögnum voru skuldir [A] um 6,3 milljónir. Á grundvelli þessa lista var reiknað út hvort mál [A] ættu að geta gengið upp. Grófur útreikningur benti til þess að slíkt væri hægt og var í framhaldi af því gerð eftirfarandi tillaga, þann 27. júlí 1991:
Greiða alla skuld við Búnaðarbanka Íslands, [...]
Greiða alla skuld við Landsbanka Íslands
Greiða alla skuld við Sparisjóð [...]
Greiða vanskil við Byggingarsjóð ríkisins
Greiða vanskil við Lífeyrissjóð [...]
Greiða vanskil við [Y] ([Z], hdl.)
Greiða vanskil við [T] ([Þ] hdl.)
Auk þessa þurfti að koma skilyrt veðleyfi frá [T], og óskilyrt veðleyfi frá Hitaveitu [...] án þess að þeir fengju greiðslu.
Hvað varðar fullyrðingar þess efnis að [A] hafi þann 24. apríl fengið loforð um lánafyrirgreiðslu er það að segja að um misskilning [A] hlýtur að vera að ræða. Listi yfir skuldir hans var ekki fenginn fyrr en 25. apríl þannig að deginum áður voru engar forsendur eða útreikningar fyrir hendi til þess að fyrir lægi neinar líkur, hvað þá ákvarðanir um fyrirgreiðslu. Enda má sjá á texta þess bréfs, sem [A] er sent þann 27. júlí að þar er ekki að finna neina tilvitnun til neins loforðs um fyrirgreiðslu, hvað þá afsökun á því að málið hafi dregist, enda fékk þetta mál sömu meðferð og önnur greiðsluerfiðleikamál, og tók hvorki meiri né minni tíma í forvinnslu, en önnur mál.
Eftir að þessi tillaga hafði verið send út var umsóknin lögð til hliðar í biðstöðu, þar til þeirra gagna hefði verið aflað, sem tillagan gerði ráð fyrir. Þó nokkuð oft var haft samband við stofnunina vegna þessa máls af [...] hjá [ráðgjafafyrirtæki] (en [A] vísaði alltaf á hann vegna sinna mála) og var oft ítrekað við hann hvað vantaði og var honum líka gerð grein fyrir því hversu hátt greiðslumat [A] fengi, miðað við skuldlausa stöðu og var það hámarkskaupverð að upphæð kr. 2,6 milljónir. Þann 30. september 1991 var haft símleiðis samband við undirritaðan og forvitnast um hvort þetta mál ætti ekki að fara að afgreiðast, þar sem allra gagna hefði verið aflað og þau löngu send til okkar. Lofaði undirritaður því að athuga hvort málið væri tilbúið til afgreiðslu og að afgreiðslu yrði þá flýtt, ef svo væri.
Athugun á stöðu umsóknarinnar leiddi síðan í ljós að ennþá voru eftirfarandi atriði í tillögunni óafgreidd og engin gögn komin vegna þeirra:
1) Ekkert var komið frá Landsbankanum, sem átti að fá greiðslu.
2) Ekkert var komið frá Sparisjóði [...], sem átti að fá greiðslur.
3) Ekkert veðleyfi var komið frá [T], einungis samþykki þess efnis að þeir væru tilbúnir að taka Húsbréf sem greiðslu á skuldinni.
4) Hitaveita [...] veitti ekki óskilyrt veðleyfi, heldur einungis veðleyfi, sem háð var því skilyrði að þeir fengju skuld sína greidda í Húsbréfum af andvirði skuldabréfsins, en skuldabréfið gat ekki orðið nógu hátt til þess að sú skuld félli undir það líka.
Auk þess sem þetta vantaði kom í ljós ný krafa á [A] frá Búnaðarbankanum [...] og einnig fjárnám frá [tryggingafélagi]. Var þá haft samband við þá kröfuhafa [A], sem upplýsingar vantaði frá og skuldir hans teknar saman aftur og kom þá í ljós að heildarskuldir voru 7,3 milljónir, eða 1 milljón króna hærri en reiknað hafði verið með í júlí. Í kjölfar þessa var endurreiknað hvort lausn væri ennþá fyrir hendi og hver greiðslubyrðin væri. Útkoman úr þeim útreikningum var sú að greiðslubyrði eftir hámarksskuldbreytingu væri um 44% af launum og uppfyllti [A] því ekki ákvæði e-liðs 5. gr. reglugerðar nr. 468/1991 (í gildi frá 8. október 1991, en sama ákvæði með sama númeri er að finna í reglugerð nr. 44/1991, sem gilti um þessi málefni fram að því), auk þess sem ákvæðum d-liðar 5. gr. sömu reglugerðar hafði þá heldur ekki verið uppfyllt. Engin lausn var því fólgin í skuldbreytingunni og yrði hún ekki til annars en að auka á skuldir umsækjanda, án þess að leysa greiðsluvanda hans. Þann 17. október 1991 var honum því send tilkynning þess efnis, þar sem ástæðulaust var að fresta þessu máli lengur.
Lokaorð.
Eins og af þessu sést þá gerði stofnunin allt sem í hennar valdi stóð til þess að leysa greiðsluvanda [A]. Það sem hins vegar brást var að [A] greinir okkur ekki rétt frá heildarskuldum sínum, þannig að umsókn hans fór lengra í vinnsluferlinum heldur en annars hefði orðið og að [A] tókst ekki að uppfylla þau skilyrði, sem reglugerð um húsbréfaviðskipti vegna greiðsluerfiðleika íbúðareigenda nr. 468/1991, setti fyrir afgreiðslu.
Ekki verður séð að [A] hafi orðið fyrir neinu tjóni af völdum stofnunarinnar í þessu máli. Greiðsluerfiðleikar [A] voru þegar orðnir of miklir til þess að stofnunin hefði getað gert eitthvað fyrir hann, þegar hann sótti um á sínum tíma. Þó svo að skuldir [A] hafi aukist eitthvað á meðan á vinnslu hjá stofnuninni stóð, vegna dráttarvaxta og kostnaðar, þá verður að líta til þess að öll mál taka ákveðinn tíma í vinnslu vegna ýmissa skilyrða, sem sett eru með reglugerð fyrir afgreiðslunni, þannig að ekki er um það að ræða að menn fái tafarlaust afgreiðslu. Stofnunin getur heldur ekki með neinu móti talist ábyrg fyrir dráttarvöxtum og kostnaði sem til falla á vinnslutíma, hvað þá þegar umsækjandi gerir sitt til þess að vinnslan dragist á langinn."
Hinn 28. október 1992 óskaði ég eftir því, að A sendi mér athugasemdir sínar í tilefni af greinargerð húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins. Athugasemdir A bárust mér með bréfi lögmanns hans 11. desember 1992. Í niðurlagi bréfs lögmannsins segir:
"Umbjóðandi minn telur að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi skuldbundið sig til að veita umbj. mínum umrædd lán, en með drætti á afgreiðslu málsins og síðan afturköllun á heimild umbj. míns til lántöku, valdið umbj. mínum fjárhagstjóni."
III.
Með bréfi 8. febrúar 1993 óskaði ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987, að Húsnæðisstofnun ríkisins skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A, að því leyti sem það hefði ekki þegar komið fram í greinargerð húsbréfadeildarinnar frá 24. september 1992. Umbeðnar skýringar bárust mér með bréfi Húsnæðisstofnunar ríkisins 19. mars 1993. Vísaði stofnunin þar til bréfs lögfræðideildar stofnunarinnar frá 22. febrúar 1993 og bréfs húsbréfadeildar stofnunarinnar 18. mars 1993. Í bréfi húsbréfadeildarinnar segir meðal annars:
"Einungis ber að ítreka að stofnunin gekk eins langt og henni var heimilt að ganga til þess að aðstoða í greiðsluerfiðleikum hans. Hins vegar vantaði upp á upplýsingagjöf frá [A], sem varð þess valdandi að umsókn hans gekk lengra í vinnslu, heldur en verið hefði, ef allar upplýsingar hefðu legið fyrir í upphafi.
Einnig er rétt að fram komi að hús það er [A] átti að [X], fór í uppboðsmeðferð á árinu 1991. Uppboðsbeiðendur voru Byggingarsjóður ríkisins, [tryggingafélag], [T], [Y], Hitaveita [...], Lífeyrissjóður [...], [tryggingafélag] og Hótel [...]. Lífeyrissjóður [...] bað við 2. sölu eignarinnar um 3ju sölu á húsinu og fór lokasala fram 25. október 1991 og átti Búnaðarbankinn [...] hæsta tilboð kr. 1.000.000.
Ekki var haft neitt samband við lögfræðideild stofnunarinnar fyrir 3ju sölu eignarinnar í þeim tilgangi að semja um greiðslu vanskila og fá Byggingarsjóð ríkisins til að afturkalla uppboðsbeiðnir sínar. Fyrir liggur að lögfræðideild stofnunarinnar hefði aldrei krafist sölu eignarinnar fyrir eins lág vanskil og voru í þessu dæmi.
Það má því ljóst vera að stofnunin og starfsmenn hennar hafa ekki farið með neinu offorsi á hendur [A], heldur lagt sig fram um að aðstoða hann eins og frekast var unnt og þrýsti ekki á um að nauðungarsala færi fram á eigninni. Vandamál [A] voru hins vegar orðin það mikil að ekki var með neinu móti hægt að koma honum til aðstoðar með þeim heimildum, sem stofnunin hafði til að aðstoða íbúðaeigendur í greiðsluerfiðleikum. [A] er því fórnarlamb sinnar eigin skuldasöfnunar, en ekki fórnarlamb rangra eða ofsafenginna starfsaðferða stofnunarinnar."
Í bréfi lögfræðideildarinnar segir meðal annars:
"Ekki var haft samband við undirritaðan fyrir þriðju sölu eignarinnar, í þeim tilgangi að semja um greiðslu á vanskilum og fá byggingarsjóð ríkisins til þess að afturkalla uppboðsbeiðnir sínar, enda hefði lögfræðideild Húsnæðisstofnunar ríkisins ekki krafist sölu eignarinnar fyrir svo lág vanskil.
Af þessu er ljóst að af hálfu lögfræðideildar Húsnæðisstofnunar ríkisins var ekki farið með neinu offorsi á hendur [A], og hann hefur ekkert upp á hana að klaga."
Með bréfum 26. mars 1993 og 4. júní 1993 óskaði ég eftir því, að A sendi mér þær athugasemdir, sem hann teldi ástæðu til að gera í tilefni af skýringum Húsnæðisstofnunar ríkisins. Með bréfi lögmanns A, B hæstaréttarlögmanns, bárust mér athugasemdir hans. Ennfremur bárust mér athugasemdir frá A með bréfi hans dagsettu 25. júlí 1993.
Í áliti mínu gerði ég grein fyrir lagaákvæðum og lagasjónarmiðum um aðstoð við íbúðareigendur í greiðsluerfiðleikum.
IV. Niðurstaða.
Í niðurstöðu álits míns, dags. 10. nóvember 1993, sagði svo:
"Kvörtun A lýtur að því, að við meðferð umsóknar hans um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika í janúar 1991 hafi honum verið gefið loforð um fyrirgreiðslu húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins vegna greiðsluerfiðleika hans við kaup á húseigninni X. Vísar A einkum til bréfs Húsnæðisstofnunar ríkisins frá 27. júlí 1991, sem rakið er í I. kafla hér að framan. Þá telur A, að umfjöllun stofnunarinnar um umsókn hans hafi tekið of langan tíma.
Það er eitt skilyrða samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 124/1990, að skipti á húsbréfum fyrir fasteignaveðbréf leysi greiðsluvanda umsækjanda. Verður í því skyni að meta greiðslu- og skuldastöðu hlutaðeigandi. Þá er ennfremur við það miðað, að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldabréfaskiptin verði að jafnaði um 20% af heildarlaunum hans. Í þeim gögnum, sem rakin hafa verið, verður ekki annað ráðið en að í apríl 1991 hafi A verið talinn fullnægja nauðsynlegum skilyrðum. Í október 1991 er hins vegar talið, að slík breyting hafi orðið á aðstæðum A, að ekki væru lengur fyrir hendi skilyrði fyrir húsbréfaláni vegna greiðsluerfiðleika. Það er skoðun mín, að ekki sé tilefni til þess að gera athugasemdir við það mat húsbréfadeildarinnnar í byrjun október 1991, að A uppfyllti ekki þau skilyrði bráðabirgðaákvæðis laga nr. 124/1990 og 5. gr. reglugerðar nr. 468/1991, að skipti á húsbréfum fyrir fasteignabréf leystu greiðsluvanda hans og að greiðslubyrðin eftir skuldabréfaskiptin yrðu að jafnaði um eða undir 20% af heildarlaunum hans.
Þá er það ennfremur skoðun mín, að ekki verði ráðið af þeim gögnum, sem rakin hafa verið í I. kafla hér að framan, að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi gefið A loforð um fyrirgreiðslu vegna greiðsluerfiðleika hans í framhaldi af íbúðarkaupum hans. Verður að mínum dómi ekki talið, að bréf stofnunarinnar frá 27. júlí 1991, eitt sér, feli í sér slíkt loforð, heldur sé þar lýst ákveðinni lausn á greiðsluerfiðleikum A. Er ljóst, að sú lausn byggir á upplýsingum í umsókn A og því, að tilteknum skilyrðum varðandi kröfuhafa verði fullnægt.
Einn megintilgangur bráðabirgðaákvæðis laga nr. 124/1990 er að leysa úr greiðsluerfiðleikum íbúðareigenda með útvegun fjár til íbúðakaupa, er átt hafi sér stað. Er ljóst að það skipti umsækjendur um slíka aðstoð verulegu máli, að úr umsóknum þeirra yrði leyst fljótt og örugglega. Frá því að A lagði fram umsókn sína 31. janúar 1991 og þar til að húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar ríkisins sendi áðurgreint bréf sitt 27. júlí 1991 voru liðnir rétt um 6 mánuðir. Frá þeim tíma og þar til umsókn A var synjað með bréfi húsbréfadeildar Húsnæðisstofnunar ríkisins 17. október 1991 liðu tæpir þrír mánuðir. Alls tók meðferð málsins því um átta og hálfan mánuð. Af gögnum málsins verður ráðið, að í apríl 1991 hafi umsókn A verið athuguð og þá hafi litið út fyrir, að hann uppfyllti nauðsynleg skilyrði um húsbréfalán. Fram kemur, að afla þurfti gagna um skuldastöðu A og yfirlýsinga frá kröfuhöfum. Af gögnum málsins verður ráðið, að gagnaöflun þessi hafi byrjað í febrúar 1991 og að henni hafi að mestu verið lokið í byrjun september 1991. Ekki hefur annað komið fram en að öflun umræddra gagna hafi verið nauðsynleg, til þess að unnt væri að afgreiða umsókn A. Verður að telja, að ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 124/1990 hafi gert ráð fyrir því, að umsækjandi aflaði tilskilinna gagna. Það er skoðun mín, að málavextir í máli þessu gefi ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu við þann tíma, sem umsókn A var til meðferðar hjá húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar ríkisins.
V.
Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú, að ekki sé tilefni til athugasemda við það, hvernig Húsnæðisstofnun hélt á máli því, sem umrædd kvörtun A lýtur að."