Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Ágreiningi um efndir samnings um ráðstöfun fullvirðisréttar verður skotið til landbúnaðarráðherra.

(Mál nr. 572/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 6. mars 1992.

A kvartaði yfir því, að Framleiðnisjóður landbúnaðarins teldi sér ekki fært á grundvelli ákvarðana Framkvæmdanefndar búvörusamninga, að efna að fullu samning, sem hún hefði gert um ráðstöfun fullvirðisréttar hennar 14. mars 1990. Í bréfi til A, dags. 6. mars 1992, gerði ég A grein fyrir því, að ég teldi ljóst, að ágreiningur væri milli hennar og þeirra stjórnvalda, sem önnuðust framkvæmd búvöruframleiðslu samkvæmt lögum nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og reglugerð nr. 406/1986. Síðan sagði í bréfi mínu til A:

„Samkvæmt 3. gr. laga nr. 46/1985 fer landbúnaðarráðherra með yfirstjórn þeirra mála, sem nefnd lög taka til. Það er skoðun mín, að ágreiningi þeim, sem kvörtun yðar lýtur að, verði skotið til úrskurðar landbúnaðarráðherra. Ég vek athygli yðar á þessu málskoti vegna þess, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef unnt er að skjóta máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem ekki liggur fyrir, að landbúnaðarráðherra hafi fjallað um mál yðar, brestur skilyrði til þess að ég geti fjallað frekar um það að svo stöddu.“

Ég benti A á, að hún gæti leitað til mín á ný að fenginni niðurstöðu landbúnaðarráðherra, teldi hún sig þá enn órétti beitta.