Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11732/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun héraðssaksóknara um að veita lögmanni aðgang að tilteknum gögnum máls.

Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um erindið þar sem viðkomandi átti ekki tilskylda aðild að málinu. Aftur á móti ákvað umboðsmaður að kynna sér nánar hvort tilefni væri til að taka athugasemdirnar við framkvæmd héraðssaksóknara og fyrirmæli ríkissaksóknara til nánari athugunar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 16. júní sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun héraðssaksóknara um að veita lögmanni X ehf. aðgang að gögnum máls eiginmanns hennar heitins hjá embættinu. Sú ákvörðun byggðist á því mati embættisins að lögmaðurinn hefði sýnt nægjanlega fram á lögvarða hagsmuni af því að fá umbeðinn aðgang og afrit af tilgreindum skjölum. Var ákvörðunin studd við fyrirmæli ríkissaksóknara nr. 9/2017, en kvörtun yðar lýtur einnig að þeim. Teljið þér fyrirmælin skorta fullnægjandi stoð í lögum og vera í andstöðu við 6. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra.

Þegar stjórnvaldi berst beiðni um aðgang að gögnum máls sem það hefur haft til meðferðar kann það að vera liður í rannsókn máls að aflað sé viðhorfs þess sem upplýsingarnar varða, svo unnt sé að leggja mat á hvort undanskilja eigi þær upplýsingarétti eða takmarka aðgang að þeim. Hins vegar er það almennt svo að einungis sá sem óskar eftir aðgangi að gögnum á aðild að slíku máli en ekki aðrir, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 30. desember 2020 í máli nr. 10886/2020. Í ljósi framangreinds eru því ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 til að kvörtun yðar fyrir hönd A yfir fyrrgreindri ákvörðun héraðssaksóknara verði tekin til frekari meðferðar.

Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti beinlínis snert hagsmuni hans eða réttindi getur allt að einu leitt til þess að mál sé tekið upp að eigin frumkvæði umboðsmanns, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997. Með hliðsjón af ákvæðum þessara greina mun embætti umboðsmanns kynna sér nánar hvort tilefni sé til að taka athugasemdir yðar við framkvæmd héraðssaksóknara og fyrirmæli ríkis­saksóknara nr. 9/2017 til nánari athugunar. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda þó ekki tilkynnt sérstaklega um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.