Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11733/2022)

Kvartað var yfir þeirri afstöðu matvælaráðuneytisins að vísa til fyrri svara vegna erinda um úthlutun veiðileyfi á árunum 1990-1991.

Umboðsmanni höfðu áður borist kvartanir frá viðkomandi vegna þessa og sem fyrr taldi hann ekki ástæðu til aðgerða.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 15. júní sl. yfir þeirri afstöðu matvælaráðuneytisins að vísa til fyrri svara vegna erinda yðar um úthlutun veiðileyfa á árunum 1990-1991.

Umboðsmanni hafa áður borist kvartanir frá yður er lúta að framangreindri afstöðu ráðuneytisins. Hefur það verið niðurstaða umboðsmanns að ekki sé tilefni til að taka kvörtunarefnið til frekari athugunar og þá hafa ekki verið gerðar athugasemdir við að ráðuneytið vísi til fyrri samskipta vegna erinda yðar.

Eins og fram kemur í bréfi umboðsmanns til yðar 21. október sl. leggur umboðsmaður Alþingis mat á hvort erindi gefi tilefni til nánari athugunar og hefur hann til þess töluvert svigrúm. Í ljósi fyrri samskipta yðar við ráðuneytið og skrifstofu umboðsmanns tel ég ekki nægjanlegt tilefni til að taka kvörtun yðar nú til athugunar.

Með vísan til þess sem að framan greinir læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.