Almannatryggingar. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11740/2022)

Kvartað var yfir synjun Sjúkratrygginga Íslands um styrk til kaupa á hjálpartæki.

Þar sem erindið hafði ekki verið borið undir úrskurðarnefnd velferðarmála voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 20. júní sl. sem lýtur að þeirri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að synja dóttur yðar um styrk til kaupa á hjálpartæki.

Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, sbr. einnig 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 760/2021, um styrki vegna hjálpartækja, er heimilt að kæra ákvörðun Sjúkratrygginga til úrskurðarnefndar velferðarmála rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta. Af kvörtun yðar, s.s. einnig kom fram í samtali yðar við starfsmann umboðsmanns 24. júní sl., verður ekki ráðið að þér hafið borið ofangreinda ákvörðun Sjúkratrygginga undir úrskurðarnefndina. Brestur því lagaskilyrði að svo stöddu til að kvörtun yðar verði tekin til nánari athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar. Fari svo að þér leitið til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins og teljið dóttur yðar enn beitta rangsleitni að málsmeðferð nefndarinnar lokinni getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.