Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11741/2022)

Kvartað var yfir framkomu forstjóra Lyfjastofnunar í tengslum við fyrirhugaða áminningu. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins vegna kvörtunar yfir þessu.

Sú regla gildir að almennt er ekki unnt að skjóta ágreiningi um ákvarðanir eða athafnir á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins til æðra stjórnvalds, þ.m.t. ákvörðun um að veita starfsmanni áminningu. Í ljósi þessa og atvika málsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að taka erindið ekki til frekari meðferðar. Hvað kvörtunina gagnvart Lyfjastofnun snerti var hún ekki borin fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningurinn var til lykta leiddur og því ekki skilyrði til að fjalla nánar um hana.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 20. júní sl. sem beinist að Lyfjastofnun og lýtur að framkomu forstjóra stofnunarinnar gagnvart yður í tengslum við að yður var tilkynnt 14. október 2020 að ráðgert væri að áminna yður, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eftir því sem fram kemur í kvörtuninni var fallið frá fyrirhugaðri áminningu í byrjun nóvember 2020. Jafnframt gerið þér athugasemdir við viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins vegna kvörtunar sem þér komuð á framfæri vegna málsins 25. nóvember 2021. Þar kemur fram að þar sem fallið var frá áminningunni hafi ekki verið tekin stjórnvaldsákvörðun sem ráðuneytinu beri að endurskoða. Jafnframt segir að ráðuneytið sé upplýst um atvik málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. lyfjalaga nr. 100/2020 skal starfrækja Lyfjastofnun undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Ráðherra kann að vera rétt, og eftir atvikum skylt, að grípa til úrræða á grundvelli yfirstjórnarheimilda sinna gagnvart undirstofnun þegar um umfangs­mikinn vanda, s.s. vegna starfsmannamála, er að ræða sem er þess eðlis að stofnunin geti ekki sinnt þeim verkefnum sem henni er falin að lögum. Á hinn bóginn gildir sú regla að almennt er ekki unnt að skjóta ágreiningi um ákvarðanir eða athafnir á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til æðra stjórnvalds, þ.m.t. ákvörðun um að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. þeirra, sbr. 49. gr. laganna. Í ljósi síðastnefnds lagaákvæðis og að virtum fyrirliggjandi gögnum tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að taka erindi yðar ekki til frekari meðferðar.

Líkt og áður greinir var fallið frá því að veita yður áminningu í nóvember 2020. Þá liggur fyrir að þér hættuð störfum hjá Lyfjastofnun á árinu 2021. Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. segir að kvörtun skuli berast innan árs frá því að stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Í ljósi þess að kvörtun yðar, að því leyti sem hún snýr að ofangreindu áminningarmáli, lýtur að athöfnum sem áttu sér stað fyrir meira en ári síðan eru ekki skilyrði að lögum til að fjalla nánar um hana.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar.