Lögreglu- og sakamál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11743/2022)

Kvartað var yfir því hvernig staðið var að gerð vettvangsskýrslu lögreglu vegna ætlaðra umferðarlagabrota. Í kvörtuninni kom fram að málið hefði verið sent héraðsdómi til áritunar dómara.

Í ljósi þess að málið hafði verið sent héraðsdómara til áritunar féll það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtunina.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 20. júní sl. yfir því hvernig staðið var að gerð vettvangsskýrslu lögreglu vegna ætlaðra umferðarlagabrota yðar. Í kvörtuninni kemur fram að málið hafi verið sent héraðsdómi til áritunar dómara.

Í 1. mgr. 149. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fjallað um heimildir lögreglustjóra til að gefa sakborningi kost á að ljúka máli með því að gangast undir hæfileg viðurlög ásamt greiðslu sakarkostnaðar. Þá segir í 1. mgr. 150. gr. sömu laga að séu skilyrði til að ljúka máli samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 149. gr. og lögreglustjóri telji að hæfileg viðurlög við brotinu séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr tiltekinni fjárhæð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setji geti hann gefið sakborningi kost á að ljúka málinu með greiðslu tiltekinnar sektar. Samkvæmt 3. mgr. 150. gr. laganna getur lögreglustjóri sent málið héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar sinni sakborningur ekki sektarboði samkvæmt 1. mgr. innan 30 daga eftir að það hefur sannanlega borist honum eða verið birt samkvæmt 156. gr. Dómari tekur ákvörðun um viðurlög með áritun á sektarboð lögreglustjóra og hefur slík áritun sömu áhrif og dómur.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Af þessu ákvæði leiðir m.a. að það fellur að jafnaði utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um sömu atvik og eru til meðferðar fyrir dómstólum. Í ljósi þess að mál yðar hefur verið sent héraðsdómara til áritunar fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar.

Með vísan til framangreinds brestur lagaskilyrði til þess að fjallað verði um kvörtun yðar og lýk ég því athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.