Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11747/2022)

Kvartað var yfir svörum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við erindi vegna Náttúruhamfaratrygginga Íslands og úrskurðarnefndar náttúruhamfaratrygginga.

Umboðsmaður taldi hvorki tilefni til að gera athugasemdir við að ráðuneytið hefði lagt málið í farveg almenns erindis né við þau svör sem það gaf.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 22. júní sl. yfir svörum fjármála- og efnahagsráðuneytisins við erindi yðar 7. apríl sl. Með erindinu, sem ber heitið „stjórnsýslukæra“, fóruð þér fram á það við ráðuneytið að Náttúruhamfaratrygging Íslands og úrskurðarnefnd náttúru-hamfaratryggingar yrðu lagðar niður og náttúruhamfaratryggingar faldar almennum vátryggingafélögum. Var erindið lagt fram í framhaldi af dómi Landsréttar 5. febrúar 2021 í máli nr. 772/2019 þar sem yður voru dæmdar bætur vegna málsmeðferðar Náttúruhamfaratryggingar.

Í svari ráðuneytisins 3. maí sl. kom fram að ljóst væri að meinbugir hefðu verið á meðferð máls yðar en engin áform væru uppi af hálfu þess um að leggja niður Náttúrahamfaratryggingu. Niðurstaða Landsréttar kynni þó að gefa tilefni til að stofnunin færi yfir það með ráðuneytinu hvaða lærdóm mætti draga af málinu svo unnt væri að tryggja að þeir veigamiklu annmarkar sem hefðu verið á málsmeðferð hennar myndu ekki endurtaka sig.

Í stjórnsýslurétti gildir sú óskráða regla að skriflegum erindum til stjórnvalda ber að svara skriflega nema svars sé ekki vænst. Í reglunni felst þó ekki að sá sem ber upp erindi við stjórnvald eigi rétt á tiltekinni úrlausn mála eða þeim efnislegum svörum við fyrirspurnum sínum sem hann óskar eftir. Það ræðst af eðli erindis, því málefnasviði sem það tilheyrir og málsatvikum að öðru leyti hvaða kröfur verða leiddar af lögum, skráðum og óskráðum, og vönduðum stjórnsýsluháttum til þeirra svara sem stjórnvöld veita vegna slíkra erinda borgaranna.

Þrátt fyrir að erindi yðar hafi borið heitið „stjórnsýslukæra“ verður ekki séð að með því hafi tilteknar stjórnvaldsákvarðanir Náttúrahamfaratryggingar verið kærðar til ráðuneytisins til endurskoðunar heldur fóruð þér fram á að ráðuneytið beitti sér fyrir tilteknum lagabreytingum sem þér tölduð málsmeðferð áðurnefndra stjórnvalda og dóm Landsréttar gefa tilefni til. Eru því ekki efni til að gera athugasemdir við að ráðuneytið hafi lagt erindi yðar í farveg almenns erindis.

Að þessu gættu, og að virtri framsetningu erindis yðar til ráðuneytisins svo og svörum þess, tel ég ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við þau svör sem yður bárust. Að þessu leyti horfi ég einnig til þess að það verður að greina á milli þess að ráðherrar eru annars vegar æðstu handhafar framkvæmdarvalds á sviði sinna ráðuneyta en jafnframt koma þeir að stjórnmálastörfum innan þings og utan. Það hefur verið afstaða umboðsmanns Alþingis að það falli utan starfssviðs hans að taka afstöðu til athafna, eða athafnaleysis, ráðherra sem einungis verður talinn þáttur eða liður í stjórnmálastarfi hans, s.s. ef það felur í sér áskorun til hans um að beita sér með tilteknum hætti, til að mynda með breytingum á löggjöf.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.