Fullnusta refsinga. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11749/2022)

Kvartað var yfir framkomu fangavarða á Litla-Hrauni

Ekki varð annað ráðið en athugasemdir vegna þessa væru til meðferðar innan stjórnsýslunnar og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu. Engu að síður ákvað umboðsmaður að óska eftir að Fangelsismálastofnun upplýsti um afdrif málsins.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 22. júní sl., fyrir hönd A yfir framkomu fangavarða á Litla-Hrauni gagnvart honum. Þá hefur hann einnig greint starfsmanni umboðsmanns Alþingis frá því í síma að Fangelsismálastofnun hafi tekið ákvörðun í tilteknu máli hans sem verður þó ekki séð að kvörtun yðar lúti að. Í tilefni af því bendi ég þó á að ákvarðanir stofnunarinnar á grundvelli laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, eru að jafnaði kæranlegar til dóms­málaráðuneytisins. Ef hann kýs að kæra ákvörðunina til ráðuneytisins, eða þér fyrir hans hönd, getur hann leitað til umboðsmanns á ný að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins ef hann telur þá tilefni til þess.

Vegna kvörtunar yðar er lýtur að framkomu fangavarða gagnvart A tek ég fram að af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að dóms­málaráðuneytið hefur áframsent athugasemdir yðar þar að lútandi til Fangelsismálastofnunar. Það verður því ekki annað ráðið en að athugasemdir yðar fyrir hönd A séu til meðferðar innan stjórnsýslunnar en af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en stjórnvöld hafa lokið athugun sinni. Í ljósi erindis yðar hef ég þó ákveðið að rita Fangelsisstofnun meðfylgjandi bréf og óska eftir að stofnunin upplýsi umboðsmann um afdrif málsins.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10 gr. laga nr. 85/1997.