Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Málskot til æðra stjórnvalds. Afgreiðsla flugmálastjórnar á umsókn um leyfi til flugkennslu verður skotið til samgönguráðherra.

(Mál nr. 552/1992)

Máli lokið með bréfi, dags. 24. janúar 1992.

A hf. kvartaði yfir afgreiðslu flugmálastjórnar á umsókn félagsins um áframhaldandi leyfi til flugkennslu. Í bréfi, er ég ritaði A 24. janúar 1992, sagði m.a.:

„Samkvæmt 3. mgr. 82. gr. laga nr. 34/1964 um loftferðir getur samgönguráðherra ákveðið, að leyfi þurfi til að stunda kennsluflug. Með stoð í framangreindu ákvæði, sbr. 188. gr. laga nr. 34/1964, hefur samgönguráðherra sett reglugerð nr. 503/1979 um flugskóla. Samkvæmt 3. gr. þeirrar reglugerðar gefur flugmálastjórn út leyfi til reksturs flugskóla. Það er skoðun mín, að virtum framangreindum lagaheimildum, að ágreiningur út af leyfisveitingum til rekstur flugskóla, þ. á m. um gildistíma slíkra leyfa, verði borinn undir samgönguráðherra til úrskurðar. Ástæða þess að ég tek framangreint fram er sú, að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem ekki liggur fyrir, að leitað hafi verið úrskurðar samgönguráðherra í máli þessu, brestur lagaskilyrði til þess, að ég geti haft frekari afskipti af máli því, er erindi [A] lýtur að.“

Ég tjáði því A, að það væri niðurstaða mín samkvæmt framansögðu, að ekki væru skilyrði til þess, að svo stöddu, að ég fjallaði frekar um málið, en félagið gæti snúið sér á ný til mín, að fengnum úrskurði samgönguráðherra, ef það teldi sig enn órétti beitt.