Sektir.

(Mál nr. 11751/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds.

Samkvæmt myndbandsupptöku sem fylgdi kvörtuninni var bifreiðinni lagt á svæði sem afmarkað er sem vistgata með umferðarmerkjum og því ekki tilefni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar Bílastæðasjóðs.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 23. júní sl. sem lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 31. maí sl. um álagningu stöðubrotsgjalds fyrir brot gegn 2. mgr. 9. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Laut brotið að því að bifreið yðar hefði verið lagt í vistgötu utan merkts stæðis.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. umferðarlaga skal vistgata afmörkuð með sérstökum merkjum sem tákna vistgötu. Þá má ekki leggja skráningar­skyldum ökutækjum í vistgötu nema á merktum stæðum. Í a-lið 1. mgr. 109. gr. laganna segir að leggja megi á gjald vegna brota á ákvæðum 2. mgr. 9. gr. þeirra.

Samkvæmt myndbandsupptöku sem fylgdi kvörtun yðar var bifreið yðar lagt á Vesturgötu á svæði sem afmarkað er sem vistgata með umferðar­merkjum. Þá verður ekki séð að bifreið yðar hafi verið lagt í merktu stæði. Að þessu virtu tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar Bílastæðasjóðs.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.