Kvartað var yfir því hvernig Bankasýsla ríkisins meðhöndlaði og brást við beiðni um aðgang að gögnum.
Þar sem málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. júní 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar 24. júní sl. yfir því hvernig Bankasýsla ríkisins meðhöndlaði og brást við beiðni yðar 11. apríl sl. um aðgang að gögnum.
Af gögnum sem fylgdu kvörtun yðar verður ráðið að þér hafið vísað málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál samkvæmt 3. mgr. 17. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og málið sé nú til meðferðar hjá nefndinni. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að vísa máli til úrskurðarnefndarinnar sem úrskurðar um rétt beiðanda til aðgangs að gögnum hafi beiðni þar um ekki verið afgreidd af hlutaðeigandi stjórnvaldi innan 30 virkra daga frá móttöku hennar.
Ástæða þess að framangreint er rakið er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af ákvæðinu leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en það hefur verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar. Af þeim sökum og þar sem ekki verður annað ráðið en að málið sé enn til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.
Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar. Ef þér teljið yður beitta rangsleitni að lokinni málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.