Almannatryggingar. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11758/2022)

Kvartað var yfir ellilífeyri og skilyrðum fyrir snemmbærri töku hans.

Þar sem kvörtunin laut fyrst og fremst að innihaldi tiltekinna lagaákvæða voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana. Að því leyti sem hún sneri að afgreiðslu eða ákvörðun Tryggingastofnunar í málinu var viðkomandi bent á að unnt væri að bera erindið upp við úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 28. júní sl. er lýtur að töku ellilífeyris. Af kvörtuninni verður ráðið að þér hafið haft í hyggju að hefja töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur á grundvelli upplýsinga frá Tryggingastofnun um þann möguleika. Síðan hafi komið í ljós að slík snemmtæk ellilífeyristaka væri bundin skilyrðum sem yður hefðu ekki verið ljós fyrir fram. Fram kemur í kvörtuninni að þér teljið að skilyrðin leiði til þess að fólki sé mismunað og varpað er fram spurningunni um hvers vegna verið sé að setja slík lög.

Kveðið er á um ellilífeyri í 17. gr. laga nr. 100/2007, um alamannatryggingar. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að þeir sem hafi náð 67 ára aldri öðlist rétt til ellilífeyris að tilteknum skilyrðum upp­fylltum. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að heimilt sé að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins. Nánari ákvæði um flýtingu á töku ellilífeyris eru í reglugerð nr. 1195/2017, um sveigjanlega töku ellilífeyris og heimilisuppbótar.

Af kvörtun yðar í heild sinni verður ekki annað ráðið en að hún lúti fyrst og fremst að innihaldi framangreindra lagaákvæða, þ.e. því fyrirkomulagi sem Alþingi hefur ákveðið að skuli gilda um töku ellilífeyris. Af því tilefni skal tekið fram að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórn­völdum landsins. Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laganna tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í 11. gr. laganna er þó mælt fyrir um að verði umboðsmaður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skuli hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn. Eftir athugun á áðurnefndum lagaákvæðum um ellilífeyri tel ég ekki tilefni til þess að ég neyti þeirra heimilda sem umboðsmanni eru samkvæmt framansögðu fengnar í lögum.  

Að því leyti sem kvörtun yðar kann að lúta að afgreiðslu eða ákvörðun Tryggingastofnunar í máli yðar er rétt að benda á að sá sem er ósáttur við ákvörðun stofnunarinnar varðandi grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta eða greiðslna getur kært hana til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr. laga nr. 100/2007. Af þessu leiðir jafnframt að umboðsmaður tekur ekki til meðferðar kvörtun vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar af framangreindu tagi nema fyrir liggi afstaða úrskurðarnefndarinnar til hennar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Í þeirri grein er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið brestur lagaskilyrði til þess að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar og lýk ég hér með umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.