Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11760/2022)

Kvartað var yfir aðstöðuleysi fyrir bifreiðar við hótel í Reykjavík og óánægju lýst með stöðubrotsgjöld sem leitt hefðu af því.

Þar sem kvörtunin beindist ekki að ákvörðun eða athöfn sem snerti hagsmuni viðkomandi eða réttindi með beinum hætti umfram aðra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. júní 2022, sem hljóðar svo:

 

Vísað er til kvörtunar yðar 29. júní sl. yfir aðstöðuleysi fyrir bifreiðar við hótel í Reykjavík. Lýsið þér yfir almennri óánægju með stöðubrotsgjöld sem af því hefur leitt.

Umboðsmanni hefur áður borist kvörtun frá yður vegna m.a. skorts á bílastæðum fyrir utan hótel í Reykjavík og hlaut hún málsnúmerið 11579/2022. Með bréfi umboðsmanns 29. mars sl. lauk hann athugun sinni á þeim þætti málsins með vísan til þess að ekki væru uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, til að kvörtun yðar að því marki yrði tekin til frekari meðferðar.

Af kvörtun yðar nú verður ekki annað ráðið en að hún lúti að almennri stöðu bílastæðamála í Reykjavík. Þar sem ekki verður ráðið að kvörtun yðar beinist að ákvörðun eða athöfn sem snertir hagsmuni yðar eða réttindi með beinum hætti umfram aðra brestur lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek fram að teljið þér yður beittan rangsleitni vegna tiltekinnar ákvörðunar Bílastæðasjóðs Reykjavík um álagningu stöðubrotsgjalds getið þér leitað til umboðsmanns af því tilefni.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.